Það er ofboðslega gaman að gera vel við sig í mat og drykk, og fátt sem toppar góðan og matarmikinn morgunmat. Pönnukökur eru fastagestir á mörgum diskum um helgar þegar tíminn er nægur til að dunda sér í eldhúsinu, en hér er skotheld og einföld uppskrift að ekta, amerískum pönnukökum.
1 bolli hveiti (ca 2,3 dl)
1 stórt egg
1 msk smjör, brætt + klípa á pönnuna
2/3 bolli mjólk
1 ½ tsk lyftiduft
3 msk sykur
¼ tsk salt
Hrærið þurrefnunum saman og bætið egginu saman við. Hrærið síðan mjólkinni saman við og því næst smjörinu. Vert er að taka fram að hægt er að minnka sykurmagnið í pönnukökunum, eða sleppa sykrinum alveg, ef þær eru bornar fram með miklu sírópi.
Setjið örlitla klípu af smjöri á pönnu og bræðið á háum hita. Lækkið síðan hitann í aðeins yfir meðallagi og steikið pönnukökurnar í sirka tvær mínútur á hvorri hlið. Þessi uppskrift er frekar lítil og úr verða um það bil 6 til 7 pönnukökur.