Yfir jólahátíðina eru seldar tæplega sjö hundruð þúsund dósir af ORA grænum baunum, en allt að þrjátíu þúsund dósir eru framleiddar á dag hjá ORA. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV í gær þar sem fylgst var með framleiðslu á baununum.
Baunirnar sem notaðar eru koma frá Bandaríkjunum, nánar tiltekið frá Seattle. Við komuna til ORA eru þær lagðar í bleyti.
„Það flýtir fyrir upptöku vatns og þyngir þær örlítið,“ segir Sigurður Ingi Halldórsson, framleiðslustjóri ORA í samtali við fréttamann RÚV.
Eftir það er sykri og salti bætt við baunirnar og þær soðnar í stórum katli. Svo fara þær í steinaskiljun og því næst í síló sem velur rétta þyngd í dósirnar. Næsti viðkomustaður baunanna er um hitagöng til að ná súrefni úr vatninu og síðan er lok sett á dósirnar og þær innsiglaðar fyrir suðu, en dósirnar koma frá Danmörku og lokin frá Mexíkó.
„Þær eru þvegnar og komið fyrir í suðukörfum áður en þær fara síðasta skrefið sem er suðuofninn. Þar eru þær teknar upp í 116 gráður á celsíus og þar með erum við búin að drepa allar bakteríur inni í dósinni og náum upp þessu langa geymsluþoli,“ segir Sigurður Ingi, en horfa má á frétt RÚV með því að smella hér.