Kalkúnn verður alltaf vinsælari hátíðarmatur en það er algjört lykilatriði að hafa fyllingu með fuglinum. Hér er afar einföld fylling sem við á matarvefnum erum langhrifnust af.
Hráefni:
13–15 bollar þurrir brauðteningar (um það bil 1 brauðhleifur)
1 bolli sellerí, saxað
1 bolli laukur, saxaður
340 g smjör
2¼ tsk. salt
1tsk. pipar
1½ msk. kalkúnakrydd
1½ bolli kjúklinga- eða kalkúnasoð
2 stór egg
Aðferð:
Hitið ofninn í 175°C. Steikið lauk og sellerí upp úr smjörinu í 10 til 12 mínútur, eða þar til grænmetið er mjúkt. Setjið brauðteningana í stóra skál, en best er að skera brauð í teninga kvöldið áður en á að gera fyllinguna og leyfa teningunum að þorna upp við stofuhita. Hellið smjörblöndunni yfir brauðmolana og hrærið. Blandið restinni af hráefnunum saman við og blandið vel saman. Smyrjið eldfast mót og hellið fyllingunni í formið. Bakið í 30 til 35 mínútur eða þar til brauðið er búið að taka fallegan, brúnan lit.