Það er óþarfi að vera í stresskasti yfir eftirréttinum um jólin. Þessi eftirréttur er einstaklega einfaldur, hann þarf ekki að baka og getur hver sem er skellt honum saman.
Kexlag – Hráefni:
1 1/2 bolli mulið kex, til dæmis hafrakex
6 msk. bráðið smjör
2 msk. sykur
Aðferð:
Blandið öllum hráefnum vel saman og setjið til hliðar.
Ostakökulag – Hráefni:
225 g mjúkur rjómaostur
1 krukka Marshmallow Fluff
3 msk. sæt mjólk (sweetened condensed milk)
1/2 bolli rjómi
Hráefni:
Blandið rjómaosti, Marshmallow Fluff og sætri mjólk saman í skál. Þeytið rjómann í annarri skál og hrærið hann síðan varlega saman við rjómaostablönduna með sleif eða sleikju. Setjið til hliðar.
Súkkulaðilag – Hráefni:
1/2 bolli rjómi
1 1/2 bolli súkkulaði
Aðferð:
Setjið súkkulaði í skál og hitið rjómann í potti. Takið rjómann af hitanum rétt áður en hann sýður. Hellið rjómanum yfir súkkulaðið og leyfið að standa í 1-2 mínútur. Hrærið vel saman þar til allt súkkulaði er bráðið. Og þá er að setja eftirréttinn saman. Takið til nokkur eftirréttarglös eða krukkur eins og ég gerði (það er einnig hægt að gera þennan í einni stórri skál). Þrýstið kexi í botninn á hverri krukku. Sprautið ostakökulagi yfir botninn og hellið síðan súkkulaðisósu yfir. Endurtakið og skreytið með litlum sykurpúðum.