Það er svo ótrúlega einfalt að gera trufflur og eru þær sem súkkulaðisprengja í munninum á manni. Þessi uppskrift er tilvalin fyrir helgina enda eru þetta bestu lakkrístrufflur í heimi.
Hráefni:
150g dökkt súkkulaði
90g rjómi
1 1/2 msk. smjör (skorið í litla bita)
50g lakkrísbitar
5-9 msk. lakkrísduft
Aðferð:
Saxið súkkulaðið og setjið það í skál sem þolir háan hita. Hitið rjómann og smjör í potti eða í örbylgjuofni þar til blandan byrjar að sjóða. Hellið rjómablöndunni yfir súkkulaðið og leyfið því að standa í nokkrar mínútur á meðan súkkulaðið bráðnar. Hrærið allt vel saman, setjið plastfilmu yfir súkkulaðiblönduna og geymið í ísskáp í að minnsta kosti fimm klukkustundir, eða yfir nóttu. Gerið litlar kúlur úr súkkulaðiblöndunni og stingið litlum lakkrísbita í miðjuna. Rúllið kúlunum upp úr lakkrísduftinu og þá eru trufflurnar tilbúnar.