Svíar eru þekktir fyrir ýmislegt í matargerð, þar á meðal kladdkökuna sem er klístruð og bragðmikil súkkulaðikaka. Það er ofureinfalt að baka kladdköku og nánast ekki hægt að klúðra því. Hér er ein skotheld uppskrift, en kladdkaka myndi sóma sér vel sem eftirréttur á jólum með heimagerðum ís eða þeyttum rjóma.
Hráefni:
200 g smjör
brauðmylsna
200 g dökkt súkkulaði, grófsaxað
4 egg
250 g sykur
40 g hveiti
sjávarsalt
Aðferð:
Hitið ofninn í 175°C og smyrjið 24 sentímetra stórt kökuform. Dreifið síðan brauðmylsnu í formið og hyljið allar hliðar með mylsnunni. Bræðið smjörið í potti yfir lágum hita. Bætið súkkulaðinu saman við og hrærið þar til allt er bráðnað og blandað saman. Takið pottinn af hellunni og blandið restinni af hráefnunum saman við á meðan þið hrærið í blöndunni. Hellið deiginu í kökuformið og bakið í 15 til 20 mínútur. Og já, þessi á að vera klístruð.