„Ég var rosa mikið í pakkanúðlum og baunum í dós. Ég kunni bara að steikja kjúkling og rista brauð,“ segir fitness-stjarnan Bára Jónsdóttir hlæjandi. Bára er 28 ára gömul og byrjaði í fitness fyrir einu og hálfu ári síðan. Fyrir það kunni hún ekkert að elda en segir að sportið hafi í raun neytt hana til að taka aðeins til hendinni í eldhúsinu.
„Ég þurfti að læra að sjóða egg og elda fisk til dæmis. En ég uppgötvaði fljótlega að það væri hægt að kaupa sérstaka eggjavél þar sem maður stillir hve vel maður vill að eggin séu soðin. Þá losnar maður við pottavesen og vélin pípir þegar eggin eru tilbúin,“ segir Bára og bætir við að hún vilji helst ekki flækja hlutina mikið þegar kemur að matseld.
„Nei, ég er hrifin af auðveldum leiðum í eldhúsinu,“ segir hún og brosir.
Þótt Bára hafi aðeins keppt í fitness í eitt og hálft ár hefur hún náð glæsilegum árangri í íþróttinni. Á sínu fyrsta móti í nóvember í fyrra kom hún svo sannarlega, sá og sigraði. Hún vann þrjá titla og var heldur betur tekið eftir þessum nýgræðingi. Hún hélt utan á heimsfræga mótið Arnold Classic sem var haldið í mars síðastliðnum í Ohio í Bandaríkjunum og náði þar fimmta sæti í sínum flokki. Viku síðar keppti hún í London og lenti í 2. og 3. sæti. Næsta mót hjá okkar konu er 15. desember hér heima, en af hverju að ákveða það seint á þrítugsaldri að byrja að keppa í fitness?
„Það voru tímamót í mínu lífi og mér fannst þetta bara vera rétti tíminn. Mig hafði alltaf langað til að gera þetta. Ég var flugfreyja á þessum tíma og átti því nægan tíma á milli fluga til að einbeita mér að því að fara í ræktina. Ég var með góðan grunn og í ágætis formi sem útskýrir kannski af hverju ég komst í mjög gott keppnisform á aðeins fimm mánuðum. Með réttu mataræði og réttum æfingum gerðist þetta rosalega hratt,“ segir hún.
Bára er mikil keppnismanneskja og leggur mikinn metnað í fitness. Núna undirbýr hún sig fyrir mótið um miðjan desember og fylgir ströngu matarplani.
„Ég er með matarplan fyrir hvern einasta dag vikunnar og enginn dagur er eins. Planið snýst í raun um að sjokkera líkamann – gefa honum til dæmis háan kaloríudag og því næst lágan kaloríudag. Þá vinnur líkaminn á mismunandi svæðum og festist ekki í einhverju ákveðnu. Þetta er sama hugsun og með brennsluæfingar, stundum sprettir maður og stundum fer maður hægar til að sjokkera líkamann. Þá sér maður árangur,“ segir Bára og útskýrir nánar í hverju matarplanið felst.
„Einn eða tvo daga í viku borða ég nokkuð af kolvetnum, tvo daga í viku borða ég mikið af kolvetnum og hinir dagarnir eru mjög lágkolvetna. Á hákolvetnadögum fæ ég mér til dæmis hafra í morgunmat í staðinn fyrir eggjahræru og hrísgrjón með kjúklingnum í staðinn fyrir að sleppa þeim. Síðan þarf að passa að hafa holla fitu inni í mataræðinu, eins og möndlur og lárperu.“
Bára segir það af og frá að fitness-fólk borði lítið.
„Það eru margir sem halda að maður sé að svelta í köttinu en ég er alltaf að borða. Mér líður rosalega vel og öll melting er hundrað prósent. Þannig að þetta plan virkar mjög vel fyrir mig.“
Það þarf kannski ekki að taka það fram að sykur er á bannlista í þessu mataræði, sem hefur reynst Báru furðu auðvelt þar sem hún var eitt sinn afskaplega mikill nammigrís.
„Ég borðaði sykur á hverjum einasta degi. Ég borðaði nammi daglega. Þetta var bara vani, en öll fjölskyldan mín er mikið fyrir sykur. Núna tek ég eftir því hvað sykur, og hveiti, er mikið eitur fyrir mann. Það var bara erfitt að taka sykurinn út fyrstu dagana en svo kemst þetta í vana,“ segir Bára. Þegar hún er ekki að undirbúa sig fyrir mót tekur hún samt nammidaga á laugardögum þar sem hún lætur ýmislegt sykursætt eftir sér.
„Núna er minna en mánuður í mót þannig að það eru engir svindldagar. En vanalega á laugardögum fer ég út að borða og fæ mér góða steik með sósu og síðan nammi eða súkkulaði. Þegar ég tek góðan nammidag og fæ mér kannski nammipoka og pítsu vakna ég oft á nóttunni eins og ég sé þunn. Mér líður illa og þarf að fá mér vatn að drekka. Sykur er algjört eitur.“
En finnst Báru erfitt að sleppa einhverjum mat þegar hún er að undirbúa sig fyrir keppni?
„Mér finnst erfiðast að taka út tyggjó. Sirka viku fyrir keppni má maður ekki borða mintur eða tyggjó því það er gervisæta í því sem veldur uppþembdum maga. Fitness-keppendur taka alla gervisætu út viku fyrir mót. Fyrst fannst mér skrýtið að mega ekki fá tyggjó en núna finnst mér það fullkomlega skiljanlegt,“ segir Bára.
Oft hefur því verið fleygt fram að þeir sem keppa í fitness þjáist að miklum næringarskorti þegar þeir loksins stíga á sviðið í keppni. Bára segir það ekki geta verið fjær sannleikanum.
„Síðustu dagarnir fyrir mót eru skemmtilegastir. Þá drekk ég mikið vatn því ég er að vatnslosa. Sirka viku fyrir mót byrja ég að bæta 330 millilítrum af vatni við á dag og tveimur dögum fyrir mót drekk ég mest af vatni. Daginn fyrir mót minnka ég vatnsneysluna snarlega, fer úr fimm lítrum í bara hálfan lítra af vatni. Vatninu skipti ég síðan út fyrir mat og borða bara kolvetni, sem kallað er að carba upp. Þá þurrkar maður sig upp og borðar þannig að vöðvarnir fái meiri fyllingu. Fólk hugsar oft að við séum svöng á sviðinu og líði illa en það er alls ekki rauninn. 24 tíma fyrir keppni getur maður meira að segja fengið sér nammi. Ég til dæmis borða Snickers rétt áður en ég fer á svið. Þá er ég búin að vatnslosa og fæ ekki bjúg,“ segir Bára.
Kærasti Báru, hann Benni, er einnig fitness-keppandi, en það er í raun matartengt hvernig þau náðu saman.
„Uppáhaldsmaturinn minn er próteinpönnukökur en það hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan ég byrjaði í fitness. Ég hafði séð kærastann minn í ræktinni en síðan byrjuðum við að spjalla í gegnum Instagram þegar ég sá að hann var að búa til pönnukökur. Þannig kynntumst við,“ segir Bára og bætir við að þau skötuhjúin búi alltaf til próteinpönnukökur á nammidögum.
En hvernig lítur framtíðin út hjá Báru?
„Ég stefni á að vera atvinnumaður í fitness,“ segir hún án þess að hugsa. Til að verða atvinnumaður þarf hún að taka þátt í sérstökum keppnum þar sem svokallað pro card er í vinning. Mótið sem hún tekur þátt í 15. desember er þannig mót.
„Á Íslandi hefur það ekki verið í boði fyrr en nú. Þeir sem vinna í sínum flokkum fá pro card. Auðvitað eru fleiri svoleiðis mót út um allan heim þannig að ég held áfram þangað til ég fæ pro card. Ef maður keppir sem atvinnumaður eru peningaverðlaun í boði fyrir efstu sæti og ef mér er boðið í keppni er allt borgað fyrir mig. Það er draumurinn.“