Það styttist óðum í jólin og margir farnir að huga að konfektgerð. Hér er ein uppskrift sem svínvirkar og getur eiginlega ekki klikkað.
Hráefni:
200 g Freyju karamellur (einn poki)
2 msk. rjómi
1 1/2 tsk. smjör
3/4 bolli salthnetur (eða hnetur að eigin vali)
200 g mjólkursúkkulaði (eða annað súkkulaði)
Aðferð:
Setjið karamellur, rjóma og smjör í skál sem þolir örbylgjuofn. Hitið í 30 sekúndur í senn og hrærið alltaf á milli þar til allt er bráðnað saman. Blandið hnetunum strax vel saman við og leyfið þessu að bíða í um 15 mínútur, eða þar til karamellan er aðeins farin að storkna. Setjið smjörpappír á bakka og notið teskeið til að taka hæfilega munnbita af blöndunni úr skálinni og raðið á smjörpappír. Skellið þessu inn í ísskáp í hálftíma eða í frysti í um 10 mínútur. Bræðið síðan súkkulaðið og súkkulaðihúðið karamellubitana. Nammi!