Við á matarvefnum höldum áfram að biðja þekkta Íslendinga um að rifja upp eftirminnilegar matarminningar sem tengjast jólunum. Nú er röðin komin að Kolbrúnu Pálínu Helgadóttur, verkefnastjóra markaðsdeildar Morgunblaðsins.
„Frá því að frumburðurinn minn fallegi kom í heiminn árið 2004 hef ég séð um jólahaldið fyrir fjölskylduna á hverju ári, mér fannst það falleg og góð hefð, svo hef ég mikla ánægju af því að elda fallegan og góðan mat og ekki síður að dekka fallegt borð. Svo það hentar mér afar vel að fá að vera jólagestgjafinn. Í gegnum árin hef ég breytt uppskriftum, prófað nýjungar og bætt og búið til mínar eigin hefðir, samanber að gera meðlætið mikið til frá grunni. Má þar nefna jólasultu, brúnkál, rauðkál, sultaðan lauk, þeytt smjör og fleira í þeim dúr,“ segir Kolbrún Pálína.
Þó hún sé til fyrirmyndar í eldamennsku er alltaf eitt matvæli sem má ekki gleymast.
„Þrátt fyrir allt gúrmeið sem maður hleður á borðið þá er alltaf eitt sem flestir Íslendingar gera, og þar með talin ég, og það er að opna eins og eina til tvær dósir af Ora meðlæti. Sem er auðvitað svolítið sérstök hefð svona ef maður veltir því raunverulega fyrir sér,“ segir hún og hlær og rifjar upp örlagaríkt aðfangadagskvöld.
„Fyrir nokkrum árum þegar klukkan var að slá sex, gestirnir voru að renna í hlað, jólatónarnir ómuðu um húsið og húsmóðirin sjaldan verið sáttari við afraksturinn þá átti ég aðeins eitt eftir, jú, að opna grænubaunadósina. Það gekk ekki betur en svo að ég skar mig svo hressilega í lófanum að allt fór á annan endann og fullkomnu jólin urðu ekki svo fullkomin eftir allt. Enda gera slysin augljóslega ekki boð á undan sér. Í dag ber ég þetta fína jólaör í lófanum sem minningu um þetta ævintýri og get hlegið að þessu.“