Það má með sanni segja að parmesan ostur sé munaðarvara, enda afar dýr. Að baki einu oststykki liggur hins vegar gríðarleg vinna.
Eitt svokallað hjól af parmesan osti getur kostað rúmlega þúsund dollara, tæplega 124 þúsund krónur. Eitt hjól er að meðaltali um fjörutíu kíló.
Parmesangerð er risastór iðnaður í Ítalíu og eru að meðaltali 3,6 milljónir parmesan hjóla framleidd á hverju ári. Þessi iðnaður er metinn á 2,2 milljarða evra, hvorki meira né minna og er osturinn ein af helstu útflutningsvörum Ítalíu.
Það er hins vegar góð ástæða fyrir því að osturinn er svona dýr þar sem það getur tekið allt að ár að búa til eitt hjól af parmesan. Þá fara um fimm hundruð lítrar af mjólk í eitt hjól og það er bara hægt að framleiða ostinn á einu svæði í Norður-Ítalíu, í héraðinu Emilia Romagna.
Fjölmiðillinn INSIDER heimsótti ostabú í héraðinu og fékk að fylgjast með ostagerðinni, eins og sést í meðfylgjandi myndbandi.