fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Matur

Matseðill vikunnar: Pad Thai, nautakássa og rjómalöguð brokkolísúpa

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Mánudaginn 19. nóvember 2018 15:00

Girnilegur vikumatseðill.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ný vika, nýjar áskoranir í eldhúsinu. Hér eru nokkrar hugmyndir frá okkur um hvað er hægt að elda í vikunni.

Mánudagur – Hvítlaukslax

Uppskrift af Diethood

Hráefni:

4 laxaflök
4-6 bollar brokkolí
4 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
6 msk. smjör, brætt
1 msk. ljós púðursykur
1/2 tsk. þurrkað óreganó
1/2 tsk. þurrkað timjan
1/2 tsk. þurrkað rósmarín
salt og pipar
1 sítróna
fersk steinselja, til að skreyta með

Aðferð:

Hitið ofninn í 200°C. Smyrjið ofnplötu með olíu eða smjöri. Raðið brokkolíi og laxi á pönnuna. Nuddið hvítlauknum á hvert flak. Blandið smjöri, púðursykri, óreganó, timjan og rósmarín saman í lítilli skál. Hellið blöndunni yfir laxinn og brokkolíið. Skerið sítrónu í tvennt og kreistið safa úr öðrum helmingnum yfir allt saman og saltið síðan og piprið. Eldið í 15 mínútur. Takið úr ofninum og skreytið með steinselju. Berið fram með sítrónubátum.

Hvítlaukslax.

Þriðjudagur – Rjómalöguð brokkolísúpa

Uppskrift af Killing Thyme

Hráefni:

1-2 msk. ólífuolía
1 laukur, skorinn í bita
2 hvítlauksgeirar, grófsaxaðir
2 sellerístilkar, skornir í bita
2-3 stórir brokkolíhausar
3 bollar grænmetissoð
1/2 tsk. salt
pipar
2 msk. smjör
2 msk. hveiti
2 bollar mjólk

Aðferð:

Hitið olíuna í stórum potti yfir meðalhita. Eldið lauk, hvítlauk og sellerí í pottinum í um 5 mínútur. Hrærið reglulega í blöndunni svo þetta brenni ekki við. Bætið brokkolí og soði í pottinn, setjið lokið á og látið þetta malla í um 10 mínútur. Maukið súpuna með töfrasprota eða blandara og færið hana yfir í stóra skál. Bræðið smjörið í pottinum og þeytið síðan hveitið saman við. Þeytið mjólkina saman við þar til blanda þykknar. Hellið brokkolíblöndunni varlega aftur í pottinn og hrærið vel. Saltið og piprið eftir smekk og berið fram, jafnvel með góðu brauði.

Brokkolísúpa.

Miðvikudagur – Nautakássa

Uppskrift af The Toasty Kitchen

Hráefni:

500 g nautakjöt sem hentar í kássu
1/2 tsk. salt
1/4 tsk. pipar
2 msk. ólífuolía
1 lítill laukur, skorinn í bita
2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
85 g tómatpúrra
4 bollar nautasoð
1 msk. Worcestershire-sósa
900 g kartöflur, afhýddar og skornar í teninga
3 gulrætur, skornar í bita
1 msk. fersk steinselja, söxuð

Aðferð:

Saltið og piprið kjötið. Setjið 1 matskeið af olíu í stóran pott og hitið yfir meðalhita. Bætið kjötinu út í og lokið kjötinu á alla kanta. Takið kjötið úr pottinum og setjið til hliðar. Lækkið hitann og bætið 1 matskeið af olíu í pottinn. Bætið lauk út í og steikið í 2 mínútur. Bætið hvítlauk saman við og steikið í 1 mínútu til viðbótar. Bætið tómatpúrru saman við og hrærið vel. Bætið síðan soðinu og Worcestershire-sósunni saman við og hrærið vel. Setjið kjötið aftur í pottinn og náið upp suðu. Setjið lokið á pottinn, lækkið hitann og látið malla í klukkutíma. Bætið kartöflum og gulrótum saman við, setjið lokið aftur á og látið malla í 25 til 30 mínútur til viðbótar. Skreytið með steinselju og berið fram.

Nautakássa.

Fimmtudagur – Pad Thai með rækjum

Uppskrift af Delish

Hráefni:

salt
225 g breiðar hrísgrjónanúðlur
2 msk. súraldinsafi
2 msk. púðursykur
1 msk. fiskisósa
1 msk. sojasósa
1/4 tsk. cayenne pipar
2 msk. grænmetisolía
1 paprika, smátt skorin
2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
2 egg, þeytt
500 g risarækjur, hreinsaðar
pipar
2 vorlaukar, smátt skornir
1/4 bolli salthnetur, saxaðar

Aðferð:

Sjóðið núðlur í saltvatni samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Takið vatnið af þeim. Blandið súraldinsafa, púðursykri, fiskisósu, sojasósu og cayenne pipar saman í skál og setjið til hliðar. Hitið olíu yfir meðalhita á pönnu. Eldið papriku í um 4 mínútur og bætið hvítlauk saman við. Eldið í 1 mínútu til viðbótar og bætið síðan rækjum saman við. Saltið og piprið og eldið í um 2 mínútur á hvorri hlið. Ýtið rækjum og grænmeti á aðra hlið pönnunnar og hellið eggjunum á hina hliðina. Eldið þau aðeins og blandið þeim síðan saman við rækjur og grænmeti. Bætið núðlunum saman við og blandið vel saman. Hellið súraldinsafablöndunni yfir og blandið saman. Skreytið með vorlauk og salthnetum og berið fram.

Pad Thai.

Föstudagur – Einfaldur, indverskur kjúklingaréttur

Uppskrift af The Endless Meal

Hráefni:

2 msk. olía
2 laukar, grófsaxaðir
3 msk. engifer, smátt skorið
6 hvítlauksgeirar, maukaðir í hvítlaukspressu
1 dós maukaðir tómatar
500 g eldaður kjúklingur, rifinn
1/4 bolli rjómi eða kókosmjólk
2 msk. möndlusmjör
2-4 msk. kókossykur eða púðursykur
salt
1 msk. garam masala
1 tsk. túrmerik
1 tsk. kóríander
1 tsk. kúmen
1/4 tsk. chili krydd (meira ef vill)
fræ úr 4 kardamommum

Aðferð:

Hitið olíu í stórum potti yfir meðalhita. Bætið lauk saman við og steikið í um 10 mínútur. Setjið garam masala, túrmerik, kóríander, kúmen, chili og kardamommur í skál og blandið saman. Blandið kryddblöndunni ásamt engiferi og hvítlauk saman við laukinn og eldið í 1 mínútu. Bætið tómötum og hálfum bolla af vatni í pottinn og hrærið vel. Leyfið þessu að malla í um 15 mínútur. Hellið þessu í blandara og maukið. Setjið maukið síðan aftur í pottinn sem og kjúklinginn, rjóma, smjör og sykur. Hitið í gegn og saltið eftir smekk.

Indverskur kjúklingur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
04.04.2024

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu
Matur
03.04.2024

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna