fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Matur

Saga Þristsins handskrifuð á blað: Eitt vinsælasta sælgæti Íslands – Átta Þristar framleiddir á sekúndu – „Unnendur Þrists fara ekki í pásu“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 17. nóvember 2018 08:00

Þristur hefur lítið breyst í áranna rás.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýverið fórum við á matarvefnum yfir sögu Freyju karamellunnar og spurðum lesendur hvaða sælgæti við ættum næst að taka í sögulega yfirferð. Þristur varð fyrir valinu, en neðst í greininni getið þið kosið um hvaða sælgæti verður tekið fyrir næst. Sælgætið Þristur hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hrósað sigri í fjölmiðlum þegar Íslendingar eru beðnir um að velja sitt eftirlætis nammi. Saga Þristsins nær aftur til ársins 1990 þegar hann var fyrst framleiddur en það má segja að fæðing hans hafi borið að með óvenjulegum hætti.

„Við fengum bón um að gera afmælisköku með karamellukremi og lakkrís. Hún var ofboðslega góð,“ segir Jón Sigurður Kjartansson, sem stofnaði sælgætisgerðina Kólus, sem framleiðir Þrist, ásamt bróður sínum, Kjartani Páli, árið 1962. Út frá þessu var ákveðið að byrja framleiðslu á Þrist, sem var í raun þrjár tegundir af sælgæti í einni sælgætisstöng. Á þessum tíma var ekki orðið jafnvinsælt og er í dag að framleiða sælgæti sem var blanda af lakkrís og súkkulaði, og sá fólk um það sjálft að kaupa sér til að mynda Siríus-súkkulaðilengju og Kólus-lakkríslengju og blanda því tvennu saman. Þristur var því mikil nýbreytni á íslenskum sælgætismarkaði.

Sjá einnig: Saga Freyju karamellunnar: Minnkuð um rúmlega helming – „Aðallega vegna þess að hún gat hreinlega kæft fólk“.

Þristurinn var stækkaður árið 1998.

Gaf strákunum smakk í leikfimi

Jón segist aldrei hafa verið í vafa um að Þristurinn myndi slá í gegn.

„Við vissum alltaf að þessi vara væri einstök,“ segir hann, í handskrifuðum svörum við spurningum DV um Þrist. Jón verður áttræður á næsta ári og vinnur enn í Kólus. Hann vildi fremur handskrifa svörin þar sem hann hefur aldrei náð almennilega tökum á tölvuskrifum. Að eigin sögn gerir hann ekki mikið lengur í framleiðslunni, en þar eru synir hans, sem vinna einnig í Kólus, hjartanlega ósammála.

Handskrifaða bréfið frá stofnanda Kólus.

Synir hans komu í raun við sögu þegar Þristurinn varð til þar sem einn þeirra, Kjartan Bergur Jónsson, stundaði þá nám í Árbæjarskóla. Faðir hans sendi hann með prufu af Þrist í skólann einn daginn og Kjartan gaf strákunum fyrstu Þristabitana í leikfimitíma. Smakkið sló í gegn og þá var ekki aftur snúið.

Árið 1998 kostaði Þristur í poka 166 krónur.

Uppáhaldslitir afmælisbarnsins

Þristur hefur haldið sínum einkennislitum, rauðum og gulum, frá upphafi og hafa umbúðirnar nánast ekkert breyst.

„Það sem selst vel, maður breytir ekki útliti á því. Það var afmælisbarnið, sem fékk súkkulaðikökuna frægu, sem hannaði umbúðirnar. Þetta voru uppáhaldslitir þess,“ segir Jón.

En hvað með nafnið Þristur. Kom eitthvert annað til greina?

„Nei, annað nafn kom aldrei til greina.“

Þristakúlur komu á markað fyrir ekki svo löngu.

„Unnendur Þrists fara ekki í pásu“

Margir muna eftir því að Þristurinn var eingöngu seldur í litlum stykkjum þegar hann kom fyrst á markað fyrir hartnær þrjátíu árum. Árið 1998 kom stærri gerð af Þrist á markað og síðar var hann seldur í pokum. Nýlega voru svo Þristakúlur settar á markað, en óvíst er hvort Kólus ætli að leika sér meira með Þristinn í framtíðinni. Sælgætisframleiðandinn þarf svo sem lítið á því að halda þar sem velgengni Þristsins virðist engan endi ætla að taka.

„Íslendingar eru bragðvís þjóð. Þeir vita hvort gott er gott. Þristur er alltaf jafn góður og salan jöfn. Unnendur Þrists fara ekki í pásu,“ segir Jón aðspurður hvort salan sé misjöfn á milli árstíða. Þá hafa nammigrísir eflaust tekið eftir því í gegnum tíðina að Kólus auglýsir lítið sem ekkert vörur sínar.

Álitsgjafar Vísis árið 2014 völdu Þrist sem besta íslenska nammið.

„Þrist þarf einfaldlega ekki að auglýsa,“ segir Jón og bætir við að mörg tonn seljist á ári hverju þótt hann vilji ekki gefa upp nákvæmar tölur. Og þótt húsakynni Kólus séu ekki ýkja stór er þar mögulegt að framleiða átta Þrista á sekúndu með nýjum vélum.

Fyrst við erum að tala um vinsældir Þristsins þá verð ég að spyrja hvort Jón hvort hans fjölskylda hafi aldrei haft áhyggjur af því að aðrir nammiframleiðendur reyndu að apa eftir gottinu. Hann segir það eiginlega ekki hægt.

„Það er tæknilega séð ekki hægt, nema að hafa okkar lakkrís.“

Ferðasíðan Must See in Iceland gerði skoðanakönnun meðal heimamanna á þessu ári og aftur var Þristur kosinn besta nammið.

Toppurinn á Íslandsferðinni

Til marks um velgengni Þristsins, og annarra vara Kólus, hefur sælgætisframleiðandinn skilað miklum hagnaði frá ári til árs og var sá sælgætisframleiðandi sem kom hvað best undan hruninu á Íslandi. Jón segir hins vegar að Þrist hafi aldrei verið ætlað að fara í útrás, þótt útlendingar séu almennt hrifnir af kruðeríinu. Þá dettur Jóni í hug ein gömul skemmtisaga.

„Það komu til okkar þýskir túristar, hjón sem höfðu áhuga á að kaupa sælgæti og fara með það heim í stórveislu sem þeim var boðið í. Þau fengu að bragða Þrist og fengu hringferð um fyrirtækið. Þau sögðu þessa upplifun toppinn á Íslandsferðinni og sælgætið það besta sem þau hefðu nokkru sinni smakkað. Það sló líka í gegn í veislunni. Nú halda þessi hjón ekki Þristlaus jól. Það er bara þannig.“

Húsakynni Kólus.

Jæja kæru landsmenn. Nú spyrjum við aftur:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
25.06.2024

Domino’s býður upp á nakta pizzu

Domino’s býður upp á nakta pizzu
Matur
22.06.2024

Þetta eru augljós merki þess að veitingastaður er skítugur og þú ættir EKKI að borða þar

Þetta eru augljós merki þess að veitingastaður er skítugur og þú ættir EKKI að borða þar
Matur
03.04.2024

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna
Matur
01.04.2024

Tveir veitingastaðir koma nýir á listann yfir þá 10 bestu í Reykjavík

Tveir veitingastaðir koma nýir á listann yfir þá 10 bestu í Reykjavík
Matur
10.01.2024

Þjóðarréttur Íslendinga valinn sá versti í heimi

Þjóðarréttur Íslendinga valinn sá versti í heimi
Matur
27.12.2023

Guðfaðir „ristaðs brauðs með avókadó“ látinn langt fyrir aldur fram

Guðfaðir „ristaðs brauðs með avókadó“ látinn langt fyrir aldur fram
Matur
06.12.2023

Pylsutilboðið vinsæla hjá Costco er dýrast á Íslandi

Pylsutilboðið vinsæla hjá Costco er dýrast á Íslandi
Matur
05.12.2023

Þriðjudagstilboð Domino´s hækkar í þriðja sinn á rúmum tveimur árum

Þriðjudagstilboð Domino´s hækkar í þriðja sinn á rúmum tveimur árum