Matgæðingar hafa eflaust heyrt talað um borgarann Sloppy Joe, enda margoft vísað til þessa réttar í sjónvarpsþáttum og bíómyndum. Borgarinn á rætur að rekja til Bandaríkjanna og var rétturinn fyrst búinn til í byrjun tuttugustu aldarinnar. Síðan þá hefur hann verið geysilega vinsæll vestan hafs en hér er um að ræða rétt sem er afskaplega fljótlegur og inniheldur einungis hráefni í ódýrari kantinum.
Hér er uppskrift að Sloppy Joe-borgurum, en þetta er ágætis tilbreyting frá hefðbundnum hamborgurum. Í uppskriftinni er notað nautahakk en auðvitað er hægt að nota hvaða hakk sem er eða kjötlausa afurð.
Hráefni:
1 msk. ólífuolía
1 paprika, smátt skorin
1 laukur, smátt skorinn
2 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
1 msk. tómatpúrra
500 g nautahakk
1 msk. Worcestershire-sósa
1½ bolli tómatsósa
1 msk. púðursykur
1 msk. eplaedik
salt og pipar
6 hamborgarabrauð
1 rauðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
súrar gúrkur
Aðferð:
Hitið olíuna í stórri pönnu yfir meðalhita. Bætið papriku og lauk út í og eldið í um fimm mínútur. Hrærið hvítlauk og tómatpúrru saman við og eldið í eina mínútu til viðbótar. Bætið hakki saman við og eldið í um sex mínútur. Bætið síðan Worcestershire-sósu, tómatsósu, púðursykri og eplaediki saman við. Saltið og piprið og látið malla þar til blandan hefur þykknað, eða í um fimmtán mínútur. Berið fram á hamborgarabrauði með rauðlauk og súrum gúrkum.