Stórleikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson og bakarinn og konditormeistarinn Sigurður Elvar Baldvinsson eru æskuvinir. Því greip Jóhannes tækifærið þegar hann hitti sinn æskufélaga um daginn og bað hann um góð ráð í eldhúsinu. Fyrir þá sem ekki vita var Sigurður til að mynda í danska landsliðinu sem sigraði á Norðurlandamóti bakara, Nordic Bakery Cup, sem fram fór í Danmörku fyrr á árinu.
„Það er ekki á hverjum degi sem maður rekst á ríkjandi Norðurlandameistara í bakstri og konditormeistara. En þegar einn slíkur er æskuvinur manns þá eykur það á líkurnar. Ég sum sé hitti áðurnefndan glútenkóng, sem í daglegu tali kallast Sigurdur E. Baldvinsson, einmitt í dag,“ skrifar leikarinn í Facebook-færslu sem hann gefur matarvef DV góðfúslegt leyfi til að endurbirta.
„Ég ákvað að nota tækifærið og skaut því að í samtali okkar hvort hann ætti ekki eitthvað gott tips fyrir almúgamann eins og mig þegar kæmi að heimabakstri. Eitthvað sem gæti sett smá slaufu á pönnukökubaksturinn um helgar. Hann hélt það nú!“ skrifar Jóhannes Haukur, en ráðið sem hann fékk er eitthvað sem allir verða að prófa.
„Hann benti mér á að fjúsa hvítu súkkulaði saman við þeytta rjómann til að gera hann extra bragðgóðan. Þvílíkt konsept! Rjómi með innbyggðu hvítu súkkulaði. Hann gaf mér nákvæmar leiðbeiningar og ég fór í málið med det samme.“
Hér á eftir fylgir uppskrift að þessum dásemdarrjóma sem glútenkóngurinn gaf leikaranum, sögð með einstökum frásagnarstíl þess síðarnefnda.
Hráefni:
200 ml af rjóma
50 g hvítt súkkulaði (þorði ekki annað en að kaupa þetta með danska fánanum af því að Siggi býr og starfar þar)
Aðferð:
Svo hitar maður rjóman þar til hann er aaaaalveg við það að sjóða.
Þá kippir maður pottinum af og skellir súkkulaðinu ofaní. Hrærir í þar til sjokkolaðeð er bráðnað.
Þá setur maður þetta í skál og filmu yfir. Svo kemur annar meistara díteill. Setja filmuna þannig yfir að hún snerti yfirborð rjómans. Þá kemur engin skán! ENGIN SKÁN! Þetta þarf svo að standa í kæli þar til næsta dag og þá bara þeytir maður.