Samfélagsmiðillinn Pinterest opinberaði nýlega hvað var vinsælast á síðunni á árinu sem er að líða. Vinsælasta eftirréttauppskriftin er hálfgerð smákaka, samt ekki. Þetta er í raun risastór smákaka sem bökuð er í stóru kökuformi og er einstaklega jólaleg. Hún er af síðunni Number 2 Pencil og hefur verið vistuð, eða pinnuð, rúmlega 346 þúsund sinnum á Pinterest. Og hér kemur uppskriftin.
Hráefni:
230 g mjúkt smjör
1 bolli sykur
1 bolli púðursykur
3 stór egg
1 1/2 tsk vanilludropar
3 bollar hveiti
3/4 tsk matarsódi
3/4 tsk salt
1 1/2 bolli jóla M&M + meira til að skreyta
1 bolli súkkulaðibitar + meira til að skreyta
1/2 bolli hvít súkkulaðibitar
Aðferð:
Hitið ofninn í 175°C. Takið til ílangt form sem er sirka 33 sentímetrar að lengd. Klæðið það með álpappír og látið hann ná upp á hliðarnar. Spreyið vel með bökunarspreyi. Þeytið smjör, sykur og púðursykur vel saman í skál. Bætið eggjum og vanilludropum við og haldið áfram að þeyta. Lækkið styrkinn á þeytaranum og blandið hveiti, matarsóda og salti saman við. Bætið M&M og súkkulaðibitum saman við með sleif eða sleikju.
Dreifið úr deiginu í forminu og þrýstið afgangs M&M, súkkulaðibitum og hvít súkkulaðibitum í deigið. Bakið í 35 til 40 mínútur. Leyfið að kólna og skerið svo í bita.