fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Matur

Sigríður Elva er ókrýnd mæjónesdrottning Íslands: Fékk eitt og hálft kíló í tækifærisgjöf

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 9. nóvember 2018 15:10

Sigríður Elva segir mæjónes vanmetið matvæli.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég bara hreinlega veit ekki hvenær ástin á mæjónesi fæddist,“ segir fjölmiðlakonan Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir og hlær. Það má með sanni segja að Sigríður Elva sé ókrýnd mæjónesdrottning Íslands en hún tengir þessa ást við þá staðreynd að hún hefur verið grænmetisæta í um 27 ár.

„Framan af, og jafnvel enn þann dag í dag, vildi það brenna við að það sem var í boði fyrir okkur grasæturnar var nákvæmlega það – sorgleg Iceberg-lauf og litlausir tómatar og ekkert. Mögulega tengist þetta því að þurfa að djúsa matinn aðeins upp. Ég hef verið þannig mjög lengi að ég get ekki borðað neitt sem er ekki með djúsí sósu. Svo er mæjónes bara svo ógeðslega gott. Hvernig er ekki hægt að elska eitthvað sem er hrein fita í formi flöffí, hvíts gúmmulaðis?“

Hamstrar lítil mæjónesbréf

Sigríður Elva er orðin alræmd fyrir þessa mæjónesást, enda er hún vanalega með töskuna fulla af litlum mæjónesbréfum sem hún rífur upp á mannamótum þegar vantar mæjónes í matargerðina.

Sigríður Elva er ávallt með lítil majónesbréf á sér.

„Ég á það til að vekja mikla gleði hjá samstarfsmönnum mínum þegar ég dreg upp litlu bréfin með mæjónesi og litlu dósina mína með salti ef mér er fært eitthvað óboðlegt á einhverjum veitingastað einhvers staðar. Ég hef ekki séð þessi bréf heima en þau eru á öllum betri búllum erlendis, að minnsta kosti sunnarlega í Evrópu. Þessi litlu, krúttlegu bréf, sem líta út eins og tómatsósubréf. Ég hamstra þau til að koma í veg fyrir yfirvofandi skort og hef oft verið með töskuna hálffulla af mæjónesi,“ segir Sigríður Elva létt í lundu.

Fékk eitt og hálft kíló í gjöf

Svo mikla athygli hefur mæjónesástríðan vakið að yfirmaður hennar á útvarpsstöðinni K100, Auðun Georg, færði henni afar sérstaka gjöf fyrir stuttu.

„Tímamótagjöfin sem Auðun Georg gaf mér þegar hann kom úr fríi um daginn voru tvær 750 millilítra flöskur af Hellman’s mæjónesi. Ég hélt að hann hefði í alvöru burðast með þetta frá útlöndum og hugsað til mín þegar hann sá Hellman’s í súpermarkaði í Búdapest. En þetta voru víst leifar af Costco-innkaupum. Sjáðu til, hann og eiginkona hans eru með eðlilegt mæjónesmunstur og þurftu að kaupa heilan helling í Costco. Þá spurði konan hans hvort hann þekkti kannski einhvern sem gæti nýtt sér mæjónesið og þá stóð ekki á svörunum,“ segir mæjónesdrottningin. Tilfinningar hennar voru blendnar þegar henni var færð gjöfin góða.

Gjöfin góða.

„Fyrst hugsaði ég: Er verið að reyna að segja mér eitthvað með þessu? En hugsanlega er bara verið að tryggja að ég fari ekki í fýlu í næsta hádegismat – mæjóneslaus og allslaus.“

En koma ofurstóru flöskurnar af mæjónesi nokkuð í staðinn fyrir fyrrnefnd bréf?

„Ég er ekki alveg viss um að ég veki jákvæða athygli á sjálfri mér þegar ég dreg upp 750 milllítra flösku á næsta veitingastað. Það kemur ekki nógu vel út fyrir ímynd mína,“ segir hún og skellir upp úr.

Djúp og innileg vonbrigði

Sigríður Elva er hrifnust af Hellman’s mæjónesi en tekur sig þó stundum til og býr til sitt eigið mæjónes.

„Mér finnst Hellman’s alveg fínt. Ég er bara mjög sátt við það. Þannig að ég nenni ekki alltaf að búa til mitt eigið. Stundum hendi ég þó í mæjónes og nota til að mynda afgangsolíu úr fetaostskrukkum. Einhvern tímann átti ég ekki nóg af bragðlítilli olíu og hellti úr fetaostskrukkunni til að drýgja þetta og það var fínt,“ segir Sigríður Elva. Hún borðar nánast mæjónes með öllu – frönskum, fransbrauði og salati svo dæmi séu tekin.

Mæjónes í morgunmat.

Hún segir það í raun hneisu að íslenskir veitingastaðir séu ekki meðvitaðri um ágæti mæjónes.

„Mér hefur alltaf liðið vel í Frakklandi og Ítalíu. Þar virðist ríkja almennur skilningur um að auðvitað áttu að bera mæjónes fram með öllu og auðvitað áttu að vera með mæjónes í morgunverðarhlaðborðinu. Þjóðverjar eru líka fínir í þessu. Margir veitingastaðir hérlendis sem henta grænmetisætum best bjóða upp á eitthvað hryllilegt eins og jógúrtsósu, sem siglir undir fölsku flaggi. Maður heldur að þetta sé einhver djúsí sósa en svo er þetta bara vonbrigði. Djúp og innileg vonbrigði. Þá er gott að vera með sitt eigið,“ segir hún og útilokar ekki frekari landvinninga í mæjónesheiminum í framtíðinni.

Verkamannamæjónes.

„Ég gæti lagst í mjög mikla rannsóknarvinnu á mæjónesgerð án þess að það færi mikið til spillis.“

En er mæjónes vanmetin matvara?

„Já, auðvitað. Það virðist vera að fólk hafi ekki skilning á því að það er hægt að hafa mæjónes með öllu. Þjóðin elskar bearnaise-sósu, sem er í raun bara mæjónes með smjöri, þannig að það er skrýtið að við höfum ekki þroska til að færa okkur upp úr kokteilsósunni og í eitthvað kúltiveraðra.“

Skothelt mæjónes

Hér fylgir uppskrift að einföldu mæjónesi frá matarvef DV sem vonandi er nógu góð til að svala mæjónesþorsta Sigríðar Elvu.

Hráefni:

1 stórt egg við stofuhita
1 msk. Dijon-sinnep
1 msk. hvít- eða rauðvínsedik
1/4 tsk. salt
240 ml bragðlítil olía
1 tsk. ferskur sítrónusafi

Aðferð:

Setjið egg, sinnep, edik og salt í matvinnsluvél og vinnið saman í 20 sekúndur. Hreinsið hliðar skálarinnar og kveikið aftur á vélinni. Bætið olíunni ofurhægt við, bara einn dropa í einu þar til fjórðungur af olíunni er búinn að blandast saman við. Þá takið þið eftir að blandan byrjar að þykkna. Haldið áfram að blanda olíu saman við, nú í þunnri bunu. Þegar öll olían er komin í matvinnsluvélina þá hreinsið þið hliðar skálarinnar og blandið saman í tíu sekúndur til viðbótar. Smakkið mæjónesið til og bætið salti, sítrónusafa eða jafnvel meira ediki við eftir smekk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
25.06.2024

Domino’s býður upp á nakta pizzu

Domino’s býður upp á nakta pizzu
Matur
22.06.2024

Þetta eru augljós merki þess að veitingastaður er skítugur og þú ættir EKKI að borða þar

Þetta eru augljós merki þess að veitingastaður er skítugur og þú ættir EKKI að borða þar
Matur
03.04.2024

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna
Matur
01.04.2024

Tveir veitingastaðir koma nýir á listann yfir þá 10 bestu í Reykjavík

Tveir veitingastaðir koma nýir á listann yfir þá 10 bestu í Reykjavík
Matur
10.01.2024

Þjóðarréttur Íslendinga valinn sá versti í heimi

Þjóðarréttur Íslendinga valinn sá versti í heimi
Matur
27.12.2023

Guðfaðir „ristaðs brauðs með avókadó“ látinn langt fyrir aldur fram

Guðfaðir „ristaðs brauðs með avókadó“ látinn langt fyrir aldur fram
Matur
06.12.2023

Pylsutilboðið vinsæla hjá Costco er dýrast á Íslandi

Pylsutilboðið vinsæla hjá Costco er dýrast á Íslandi
Matur
05.12.2023

Þriðjudagstilboð Domino´s hækkar í þriðja sinn á rúmum tveimur árum

Þriðjudagstilboð Domino´s hækkar í þriðja sinn á rúmum tveimur árum