Ef þú ætlar að baka á aðventunni þá mælum við með þessum dásamlegu lakkrístoppum. Eina vandamálið við þá er að þeir hverfa aðeins of fljótt ofan í maga.
Hráefni:
6 eggjahvítur (við stofuhita)
1 bolli sykur
3/4 bolli púðursykur
1 1/2 tsk. lyftiduft
300 g piparlakkrískurl
4-5 msk. lakkrísduft
Aðferð:
Hitið ofninn í 150°C og klæðið ofnplötur með smjörpappír. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær freyða. Bætið síðan sykri og púðursykri saman við í einni bunu og stífþeytið í 10-15 mínútur. Blandið lyftidufti, kurli og lakkrísdufti vel saman við blönduna með sleif eða sleikju. Mér finnst gott að skella blöndunni í sprautupoka og sprauta litla toppa á ofnplötuna. Þeir geta verið nokkuð þétt saman en þeir breiða aðeins úr sér. Þá er einnig hægt að setja þá á plötuna með skeið. Bakið í 18-20 mínútur.