Matgæðingurinn Nanna Rögnvaldardóttir gaf nýverið út bókina Beint í ofninn og deilir hér með lesendum einni gómsætri uppskrift úr bókinni.
„Þetta er réttur fyrir alla sem kunna að meta fisk – og jafnvel suma sem ekki kunna að meta hann því að það mætti alveg setja kjúklingalundir eða kjúklingabringur, skornar í ræmur, í staðinn fyrir fiskinn. En rétturinn er glútenlaus, eggja- og mjólkurvörulaus og inniheldur ekki hnetur. Ef notuð er ósæt chilisósa er enginn viðbættur sykur í honum heldur. Um 200 g af fiski á mann ætti að vera hæfilegur skammtur fyrir flesta en þessa uppskrift – og flestar aðrar uppskriftir í bókinni – er mjög einfalt að minnka eða stækka eftir þörfum,“ segir Nanna.
Sjá einnig: Nanna gefur góð ráð í eldhúsinu: „Það fær enginn áhuga á matargerð af því einu að flysja kartöflur“.
Hráefni:
400 g laxaflak
100 ml. mild chilisósa
2 msk. sojasósa
safi úr 1 límónu
1 rautt chilialdin, skorið í þunnar sneiðar
1 stór gulrót, skorin í sneiðar
1 paprika (eða tvær hálfar, mismunandi litar), skorin í bita
½ kúrbítur, skorinn í bita
½ laukur, saxaður
1½ msk. olía
kóríanderlauf
Aðferð:
Hitaðu ofninn í 200°C. Skerðu laxinn í bita þvert yfir. Blandaðu saman chilisósu, sojasósu, límónusafa og chilisneiðum, settu laxinn út í og láttu standa nokkra stund. Dreifðu gulrót, papriku, kúrbít, lauk og olíu á ofnbakka eða í stórt, eldfast mót og bakaðu í 15–20 mínútur. Ýttu því þá til hliðar, settu laxinn í miðjuna og dreyptu maríneringunni yfir. Settu aftur í ofninn og bakaðu í 8-10 mínútur, eða þar til laxinn er rétt eldaður í gegn. Stráðu kóríanderlaufi yfir.
Hér má nota bleikju í staðinn fyrir laxinn, og raunar ýmsar tegundir af fiski – þorskur, ýsa, steinbítur, langa og lúða eru allt fiskar sem ættu að henta vel. Grænmetinu mætti líka skipta út eftir þörfum og nota til dæmis blómkál, spergilkál, butternutgrasker eða kartöflur, allt skorið í hæfilega bita. Tómatbáta eða kirsiberjatómata mætti líka setja í ofninn um leið og fiskinn. – Ég notaði milda, sæta chilisósu en það mætti líka nota aðrar chilisósur; þó er best að hafa sósuna ekki allt of sterka.
Leifarnar geymast í einn eða tvo daga í kæli. Þá er til dæmis hægt að stappa laxinn, blanda eggi og brauðmylsnu saman við og móta buff sem steikt eru á pönnu með grænmetisafgöngunum. Einnig mætti sjóða hrísgrjón eða útbúa kúskús, losa fiskinn sundur í flögur, hita á pönnu ásamt grænmetinu og blanda saman við grjónin – eða hita leifarnar og nota sem fyllingu í tacos, ásamt meiri chilisósu, sýrðum rjóma, salatblöðum og kóríander.