Það er farið að kólna allhressilega og fátt notalegra en að koma sér vel fyrir í kósíheitum heima við og snæða eitthvað dásamlegt. Við á matarvefnum tengjum epli og kanil alltaf við þennan árstíma, eins og margir fleiri, en nýlega uppgötvuðum við snilldina sem er eplasmjör.
Mauksoðin, krydduð epli sem hægt er að nota ofan á brauð, í kökur, í hafragrautinn, ofan á pönnukökur, í þeytinginn eða bara hvað sem er.
Best er að nota frekar súr epli í smjörið, til dæmis Jonagold eða Mcintosh, en kosturinn við svona smjör er að það geymist í heilan mánuð, jafnvel aðeins meira, í ísskáp í góðri krukku og í frysti í allt að eitt ár.
Hér fylgir skotheld uppskrift að eplasmjöri. Við mælum hiklaust með þessu lostæti!
Hráefni:
10 meðalstór epli
1/3 bolli eplasafi
2 msk nýkreistur sítrónusafi
½ tsk vanilludropar
½ dl púðursykur
1 msk kanill
¼ tsk múskat
1/8 tsk salt
Aðferð:
Afhýðið eplin, takið kjarnana úr og skerið í sneiðar. Setjið þau í stóran pott. Blandið restinni af hráefnunum vel saman í lítilli skál og hellið yfir eplin. Setjið pottinn á hellu yfir lágum hita og leyfið þessu að malla í 6 til 8 klukkustundir.
Leyfið eplablöndunni að kólna og takið aðeins af vökvanum. Setjið blönduna síðan í blandara og blandið þar hún er silkimjúk. Hér er gott að skipta blöndunni niður í nokkra hluta, en ekki setja allt heila klappið í blandarann í einu. Setjið í krukkur og geymið inni í ísskáp.