Það er fátt betra en nýbakað brauð, en Guðrún Hálfdánardóttir lumar á afskaplega einföldu brauði sem bakað er í leirpotti. Uppskriftina fékk hún frá vinkonu sinni Ernu Herbertsdóttur, en uppruni uppskriftarinnar liggur ekki ljós fyrir.
„Ég hef bakað mörg brauð í gegnum tíðina en þetta slær þau öll út. Það er svakalega einfalt og fljótlegt, nema hefunin,“ segir Guðrún, en brauðið þarf að hefast í 15 til 19 klukkustundir. Hún mælir með að undirbúa brauðið daginn áður en það bakast.
„Ég hef gert nokkur deig að kveldi og tekið fimmtíu manns í súpu daginn eftir með nýbökuð brauð beint úr ofninum.“
Guðrún leggur áherslu á að brauðið sé best bakað í leirpotti sem hitað er í ofni áður en deigið er sett í hann. Þeir sem eiga ekki leirpott, en ætla að fjárfesta í slíkum, þurfa þá að muna að bleyta pottinn lítið eitt áður en bakað er í honum.
Hráefni:
3 bollar hveiti
1 ½ tsk salt
¼ tsk ger
1 ½ bolli ylvolgt vatn
Aðferð:
Allt rétt hrært saman. Deigið látið hefast undir loki/plasti í 15 til 19 klukkustundir. Svo er deigið aðeins tekið saman. Ekkert hnoð, nema þið viljið. Hita ofn í 250°C og ofnpotturinn sem baka á í hitnar með ofninum. Deigið sett í ofnpottinn þegar réttum hita er náð. Það er mjög mikilvægt að potturinn hitni inni í ofninum til að góð skorpa fáist á brauðið.
Bakað í 30 mínútur. Lokið tekið af. Hitinn lækkaður í 230°C og bakað í 10-20 mínútur til viðbótar.
Guðrún tekur fram að þetta sé grunnuppskrift og hægt sé að bæta ýmsu út í brauðið áður en það er bakað. Til dæmis:
Sólþurrkaðir tómatar
Ólífur
Ristuð fræ
Rifinn mexíkóostur
Pítsakrydd