Sumir segja að morgunmatur sé mikilvægasta máltíð dagsins. Það er ofboðslega ljúft að eiga rólega og góða byrjun á deginum, sérstaklega ef það er eitthvað gott með kaffinu. Þessi morgunverðarréttur er svo rosalega góður og tilkomumikill að það er erfitt að hemja sig.
Hráefni:
2 stórar sætkartöflur
1 msk. ólífuolía
2 tsk. salt
2 tsk. pipar
8 egg
1 tómatur, skorinn smátt
¼ bolli vorlaukur, saxaður
1 elduð paprika, skorin í bita
½ tsk. hvítlaukskrydd
120 ml mjólk
bökunarsprey
10 skinkusneiðar
80 g spínat
Aðferð:
Hitið ofninn í 220°C og takið til brauðform. Spreyið það vel með bökunarspreyi. Skerið sætkartöflurnar í þunnar sneiðar, en hér er gott að nota mandólín ef svoleiðis er til á heimilinu. Setjið kartöflurnar í skál og kryddið þær með 1 teskeið af salti og 1 teskeið af pipar og drissið olíunni yfir þær. Hrærið vel í þessu og raðið kartöflusneiðunum síðan á smjörpappírsklædda ofnplötu. Bakið í 10 mínútur.
Blandið eggjum, tómati, vorlauk, papriku, hvítlaukskryddi, restinni af salti og pipar og mjólk vel saman í skál. Lækkið hitann á ofninum í 200°C. Raðið kartöflusneiðunum í botninn og upp hliðarnar á brauðforminu. Raðið helmingnum af skinkusneiðunum ofan á kartöflurnar, síðan spínatinu, bætið síðan við öðru lagi af sætkartöflum, svo eggjablöndunni, þá restinni af skinkunni og loks restinni af kartöflusneiðunum. Brettið upp á kartöflusneiðarnar á hliðunum til að loka herlegheitunum. Bakið í 30 mínútur og leyfið þessu að kólna aðeins áður en tekið er úr forminu.