Enski boltinn snýr aftur um helgina eftir landsleikjahlé og margir vinahópar safnast saman fyrir framan skjáinn og gera vel við sig í mat og drykk. Hér fylgir fullkominn smáréttur fyrir fótboltaáhorf og rennur ljúflega niður með hvers kyns drykk.
Hráefni:
1,5 kg kjúklingavængir
salt og pipar
115 g brætt smjör
½ bolli „hot sauce“ að eigin vali
1 msk. hlynsíróp
Aðferð:
Hitið ofninn í 200°C og klæðið ofnplötu með smjörpappír. Raðið kjúklingavængjum á plötuna og passið að þeir snertist ekki. Kryddið þá með salti og pipar. Bakið vængina í 15 mínútur, snúið þeim síðan og bakið í aðrar 15 mínútur. Stillið ofninn á grillstillingu og færið plötuna ofar í ofninum. Grillið í um 5 mínútur en fylgist vel með svo þeir brenni ekki. Blandið öllum hráefnum í sósuna, smjöri, „hot sauce“ og sírópi, vel saman í skál og hellið yfir vængina. Hrærið í svo vængirnir séu fljótandi í sósu og berið svo fram með nóg af pappírsþurrkum.