Vestan hafs er oft talað um svokallaðan „comfort food“, eða huggunarmat. Er frasinn notaður yfir rétti sem á einhvern hátt geta látið manni líða betur á slæmum degi.
Ef þessi uppskrift hér að neðan er ekki huggunarmatur allra huggunarrétta þá vitum við ekki hvað í ósköpunum getur huggað okkur meira. Allar ábendingar vel þegnar!
Hráefni:
1 msk. ólífuolía
1 stór laukur, saxaður
2 rauðar eða grænar paprikur, grófsaxaðar
salt
225 g sveppir, skornir í sneiðar
3 hvítlauksgeirar, maukaðir í hvítlaukspressu
2 msk. tómatpúrra
1 bolli pepperoni, smátt skorið + óskorið pepperoni til að skreyta með
1 msk. ítölsk kryddblanda
1 msk. þurrkaðar chili flögur
800 g saxaðir tómatar
4 bollar kjúklingasoð
½ bolli rjómi
1 baguette-brauð, skorið í sirka 10 sentímetra langa bita
2 bollar rifinn ostur
fersk steinselja, söxuð
Aðferð:
Hitið olíuna í stórum potti yfir meðalhita. Bætið lauk og papriku út í og kryddið með salti. Steikið þar til grænmetið er farið að mýkjast, í um 3 mínútur. Bætið síðan sveppum út í og steikið þar til grænmetið hefur brúnast og safinn hefur gufað upp, eða í um 8 mínútur. Bætið hvítlauk og tómatpúrru saman við og eldið í um 1 mínútu. Bætið pepperoni sem búið er að skera út í og hrærið til að blanda öllu saman. Bætið ítalska kryddinu, chili flögum, tómötum og kjúklingasoði út í og náið upp suðu. Látið malla í 20 mínútur. Takið af hitanum og hrærið rjómanum saman við.
Setjið á grillstillingu á bakarofninum. Raðið brauði ofan á súpupottinn og drissið rifna ostinum yfir. Raðið pepperoni sem ekki er búið að skera ofan á ostinn og setjið súpupottinn varlega inn í ofninn þar til osturinn hefur bráðnað. Skreytið með steinselju og berið fram.