Eftirfarandi uppskrift kemur frá Hönnu Þóru á vefsíðunni Fagurkerar og máttum við til með að deila henni.
Ostakökublanda – Hráefni:
100 gr smjör við stofuhita
200 gr hreinn rjómaostur við stofuhita
2 msk. Sukrin „flórsykur“ (fæst t.d. í Nettó í heilsudeildinni)
2 dl þeyttur rjómi eða 1 dós sýrður rjómi (fer eftir smekk hvers og eins)
2 tsk. vanilludropar
3 msk. hreint kakó
„Oreo“-möndlukurl – Hráefni:
1 dl möndlumjöl
2 tsk. kakóduft
2 msk. Sukrin „púðursykur“
smjörklípa
Aðferð:
Byrja á því að þeyta rjómann og taka til hliðar. Í sömu skál skelli ég smjörinu og rjómaostinum ásamt vanilludropum, kakóinu og „flórsykrinum“ frá Sukrin og þeyti allt vel og lengi saman áður en rjómanum er bætt varlega út í. Á meðan ég er að þeyta ostablönduna bý ég til kurlið sem minnir mjög á Oreo! Ég set möndlumjöl á þurra pönnu og leyfi því aðeins að brúnast. Bæti svo 2 tsk. af kakói út á blönduna ásamt 2 msk. af Sukrin „púðursykri“ og smá klípu af smjöri. Tek þetta til hliðar og leyfi því að kólna áður en þetta er sett í botninn á fallegu glasi og ostakökublandan sett yfir.