Margir byrja daginn á ávaxta- eða grænmetisþeytingum, en hér er einn skotheldur sem kemur svo sannarlega á óvart. Leynihráefnið er haframjöl, sem verður til þess að þeytingurinn verður mun saðsamari.
Hráefni:
2 msk haframöl
1/4 bolli mjólk að eigin vali
1 1/2 bolli frosin jarðarber
1/2 bolli rabarbari (eða einn meðalstór stilkur)
1/2 bolli grísk jógúrt
1/4 tsk kanill
1 tsk vanilludropar
1 tsk hunang (meira ef vill)
Aðferð:
Setjið haframjöl og mjólk í blandara og leyfið því að bíða í um fimm mínútur. Bætið síðan restinni af hráefnunum saman við og blandið þar til þeytingurinn er kekkjalaus.