Allir sem borða egg hafa skoðanir á því hvernig á að matreiða þau. Sumir vilja spæld, aðrir vilja eggjahræru og enn aðrir búa til eggjaköku. Svo er það náttúrulega hið sívinsæla spælda egg í brauði.
Við erum hins vegar ástfangin af þessari frábæru aðferð til að spæla egg – ofan á bræddum osti. Osturinn er bræddur fyrst á pönnu þannig að hann verður dásamlega stökkur þegar eggið er tilbúið.
Hráefni:
Egg
Handfylli af osti (hér er gott að nota cheddar eða annan bragðsterkan ost)
Aðferð:
Setjið pönnu á hellu og hitið yfir meðalhita. Setjið ostinn í miðju pönnunar og leyfið honum að malla þar til hann byrjar að minna á blúndu. Brjótið síðan eggið ofan á ostahrúguna og notið spaða eða sleikju svo eggjahvítan renni ekki út um allt. Setjið lok á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur, eða þar til hvítan er elduð en rauðan enn hlaupkennd.