Það tekur enga stund að skella í þennan kjúklingarétt og tilvalið að sjóða hrísgrjón með eða blanda saman í salat á meðan kjúklingurinn mallar í ofninum. Einfaldara gerist það varla.
Hráefni:
8 kjúklingaleggir eða -læri
1 tsk salt
½ tsk pipar
5 msk sterkt sinnep
5 msk hunang
6 msk rauðvínsedik
6 msk ólífuolía
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
Aðferð:
Hitið ofninn í 230°C og takið til ofnskúffu. Gott er að smyrja hana með smá olíu. Saltið og piprið kjúklingaleggina- eða lærin og nuddið kryddinu vel inn í skinnið. Raðið leggjunum, eða lærum, í ofnskúffuna.
Blandið sinnepi, hunangi, rauðvínsediki, ólífuolíu og hvítlauk saman í lítilli skál. Hellið sósunni yfir kjúklinginn og hrærið aðeins til í þessu svo sósan hylji kjúklinginn. Bakið í 15 mínútur og ausið soðinu yfir kjúklinginn. Bakið síðan í 10 til 15 mínútur í viðbót. Leyfið kjúklingnum að hvíla í 5 mínútur áður en hann er borinn fram.