Það virðist ætla að vera lífseig barátta að finna út úr því hvað sé í kvöldmatinn á hverjum einasta degi. Þessi uppskrift gæti tekið þann hausverk af einhverjum þarna úti, en um er að ræða einfalda uppskrift að kjúklingi í hvítlauks- og sítrónusósu. Fersk sósan fer einstaklega vel með kjúklingakjötinu og svo er ekki verra að bera réttinn fram með pasta, hrísgrjónum, salati eða brauði.
Kjúklingur – hráefni:
900 g kjúklingalæri á beini
salt og pipar
smá paprikukrydd og malað kúmen (má sleppa)
1 msk smjör
4 hvítlauksgeirar, saxaðir
2 msk Worcestershire-sósa
Sítrónusósa – hráefni:
rifinn börkur af 1 sítrónu
3 msk nýkreistur sítrónusafi
½ msk sykur
1 tsk dijon sinnep
½ tsk salt
¾ bolli rjómi
3 msk steinselja, söxuð (má sleppa)
Aðferð:
Hitið ofninn í 200°C. Skolið kjúklingalærin og þerrið þau með viskastykki. Kryddið allar hliðar kjúklingsins með salti og pipar og dustið svo papriku og kúmeni yfir lærin ef þið notið það.
Takið ykkur stóra pönnu í hönd og hitið yfir meðalhita. Bræðið smjörið í pönnunni og setjið síðan lærin á pönnuna þannig að skinnið snúið niður. Steikið þar til skinnið er stökkt og gott, eða í um 3 mínútur.
Snúið kjúklingnum við og steikið í 2 mínútur til viðbótar. Slökkvið á hellunni og takið kjúklinginn úr pönnunni. Setjið hvítlauk og Worcestershire-sósu í pönnuna og setjið kjúklinginn aftur í pönnuna þannig að skinnið snúi niður. Setjið pönnuna í ofninn og bakið í 25-30 mínútur, eða þar til lærin eru fullelduð.
Takið kjúklinginn úr pönnunni og setjið pönnuna aftur á eldavélina og hitið yfir meðalhita. Blandið öllum hráefnunum í sítrónusósuna saman, það er sítrónuberki, safa, sykri, sinnepi, salti og rjóma, og hellið í pönnuna. Smakkið til með salti og pipar. Leyfið sósunni að malla í 2 til 3 mínútur og setjið kjúklinginn síðan í sósuna í um 2 mínútur. Takið pönnuna af hellunni og bætið pasta eða hrísgrjónum út í réttinn ef þið viljið. Skreytið með ferskri steinselju og berið fram.