Það er fátt vinsælla á veisluborðum en dúnmjúk og bragðgóð skinkuhorn. Hér er uppskrift að einum slíkum, en velkomið er að leika sér með uppskriftina og fylla hornin með einhverju öðru en skinku.
Hráefni:
1 pakki þurrger
2 bollar mjólk
1 msk sykur
1 tsk salt
1 kíló af hveiti
100 g smjör (brætt)
1 egg
1 msk mjólk eða vatn
1 pakki léttsmurostur með skinku- og beikonbragði
8-10 sneiðar af samlokuskinku (smátt saxað)
sesamfræ
Aðferð:
Hitið mjólkina í örbylgjuofni í um 45 sekúndur, eða þar til hún er volg. Hellið þurrgeri, sykri og salti saman við og látið þetta standa í fimm mínútur. Blandið síðan gerblöndunni saman við hveiti og smjör. Ekki samt blanda öllu hveitinu saman við strax heldur skiljið 1 bolla eftir og bætið við ef deigið er of blautt. Hnoðið vel og hyljið síðan skálina með hreinu viskastykki og leyfið deiginu að hefast í um klukkustund.
Hitið ofninn í 210°C og klæðið ofnplötur með smjörpappír. Skiptið deiginu í 6-8 búta. Fletjið út hring úr hverjum bút og skerið hann síðan í 8 jafnstóra þríhyrninga. Smyrjið smurostinum á breiða endann á hverjum þríhyrning og drissið skinkunni yfir. Rúllið hornunum upp með því að byrja á breiða endanum. Raðið á plöturnar.
Þeytið egg og mjólk eða vatn saman og penslið skinkuhornin með blöndunni. Stráið síðan sesamfræjum yfir þau. Ekki skemmir að drissa rifnum osti yfir líka. Bakið í 13-16 mínútur eða þar til hornin eru farin að taka góðan lit.