Lindt-trufflurnar spila veigamikið hlutverk í þessari uppskrift að algjörlega ómótstæðilegum bollakökum sem nánast bráðna í munni. Þessar svíkja sko ekki!
Í uppskriftinni eru notaðar Lindt-trufflur með hvítu súkkulaði en auðvitað er hægt að nota hvaða bragð af trufflum sem er.
Kökur – hráefni:
¾ bolli hveiti
1 tsk lyftiduft
1/3 bolli mjólk
1 tsk vanilludropar
2 eggjahvítur
3 msk mjúkt smjör
¼ bolli sykur
1/8 bolli sýrður rjómi
6 Lindt-trufflur (skornar í tvennt)
Aðferð:
Hitið ofninn í 170°C. Stífþeytið eggjahvíturnar í tandurhreinni skál. Hrærið hveiti og lyftiduft saman í annarri skál. Blandið mjólk og vanilludropum saman í enn annarri skál. Í fjórðu skálinni hrærið þið síðan saman smjör og sykur. Bætið sýrða rjómanum út í þá blöndu og hrærið vel.
Skiptist síðan á að blanda mjólkur- og hveitiblöndunni saman við smjörblönduna. Að lokum er eggjahvítunum blandað varlega saman við með sleikju. Setjið herlegheitin í form og bakið í 15 til 20 mínútur. Á meðan er gott að skera Lindt-trufflurnar í tvennt. Skerið lítið X ofan í hverja bollaköku um leið og þið takið þær úr ofninum. Þrýstið Lindt-trufflu ofan í og horfið á gotteríið bráðna ofan í kökuna. Mmmmm. Kælið kökurnar alveg áður en kremið er sett á.
Krem – hráefni:
60 g hvítt súkkulaði
110 g mjúkur rjómaostur
30 g mjúkt smjör
1 tsk vanilludropar
1 bolli flórsykur
Aðferð:
Bræðið hvíta súkkulaðið og leyfið því að kólna í þrjár mínútur. Þeytið smjörið og rjómaostinn síðan vel saman, í 3 til 5 mínútur. Blandið svo öllum hráefnum saman og skreytið kökurnar.