Ragga Nagli er klínískur heilsusálfræðingur og einkaþjálfari. Á Facebook heldur hún úti vinsælli síðu þar sem hún birtir reglulega pistla um hreyfingu, mataræði og fleira. Fyrr á árinu gaf hún út Haframjöls uppskriftahefti, sem kennir okkur að nota haframjög á splunkunýjan hátt og hugsa út fyrir gamla grautinn. Enginn sykur, engin aukaefni, ekkert vesen. Tilvalið hefti fyrir matarperra sem vilja safna góðum og girnilegum hollustuhugmyndum í gagnabankann.
Bananabrauð
Þykk sneið af þessu brauði er guðsgjöf til mannkyns og með þykkri slummu af MONKI grófu möndlusmjöri eða gamla góða skólaostinum getur það dimmu í dagsljós breytt á örfáum sekúndum.
Uppskrift
550 g vel lífsreyndur banani
225 g Himnesk hollusta fínvalsað haframjöl
½ tsk. kanill
½ tsk. negull
klípa salt
½ tsk. matarsódi
100 ml Good Good sykurlaust síróp
Aðferð
Hita ofn í 180°C
Smyrja brauðform 20×11 cm. með fljótandi kókosolíu (Himnesk hollusta)
Hræra öllu saman með töfrasprota eða í blandara þar til þykkt deig hefur myndast
Baka í 35–40 mínútur