Þessi klassíski forréttur hefur ekki verið í tísku undanfarin ár. Hann er þó að ganga í endurnýjun lífdaga þessi dægrin, sérstaklega í flottum boðum í íslensku fjármálalífi. Það þarf því enginn að segja af sér þó að hann elski rækjukokteila. Fyrir nokkrum árum, í viðtali við breska tímaritið GQ, viðurkenndi einn þekktasti matreiðslumaður heims, Hestor Blumenthal, að honum líkaði fátt betur en rækjukokteilar. Hér er uppskriftin sem Blumenthal birti í blaðinu, með þeirri einu undantekningu þó, að við notum chili-tómatssósu í stað hefðbundinnar tómatsósu. Lífið er of stutt til að borða ekki sjóðheitan mat.
Að lokum er rétt að taka fram að það er algjörlega nauðsynlegt að nota risarækjur í þennan rétt.
Hráefni (fyrir fjóra):
– 110 grömm af chili-tómatssósu
– 100 grömm mæjónes (heimagert er langbest en Hellmans dugar)
– 1/4 úr teskeið af cayanne-pipar
– 12 dropar af Worcestershire-sósu
– 10 grömm af sítrónusafa
– 400 grömm eldaðar risarækjur
– Rifin iceberg-salatblöð eftir smekk
– heilt avókadó, skorið í teninga
– Salt og pipar
Aðferð:
Setjið tómatsósuna, mæjónesið, piparinn og sítrónusafann í skál og hrærið duglega saman. Bætið við salti og pipar eftir smekk og hrærið. Bætið rækjunum saman við. Leggið salatblöðin tættu á botn fjögurra skála og setjið síðan avókadó-teningana ofan á. Skiptið rækjunum jafnt í skálarnar.
Verði ykkur að góðu!