„Okkur langaði að nota bjór í ís hjá okkur og settum okkur í samband við Borg Brugghús sem er þekkt fyrir bragðmikla bjóra og að leggja upp úr þessu samhengi bjórs og matar. Eftir gott spjall var ákveðið að nota bjórinn Surtur Nr. 47 sem er bragðmikill 10% Imperial Stout bruggaður með sérmöluðu kaffi frá Te & Kaffi. Með þessu passaði svo vel að nota pretzel og karmellu sem við gerum sjálfir og notum einnig Surt í – þetta er því októberfest rétturinn okkar í ár,“ segir Sturlaugur Orri Hauksson ísgerðarmaður hjá Skúbb.
Ísbúðin Skúbb er staðsett á Laugarásvegi 1 í Reykjavík og tók til starfa fyrr á þessu ári. Skúbb framleiðir ís á staðnum í litlum handgerðum skömmtum með ítölsku þema. Rík áhersla er á ferskt og ósvikið bragð með sérvöldum hráefnum frá öllum heimshornum, lífræna mjólk og án óþarfa aukaefna.