Fiskbúðin Sundlaugavegi er sennilega elsta fiskbúðin á höfuðborgarsvæðinu, en hún er búin að vera á sama stað í hartnær 70 ár, eða frá 1947. Að sögn Arnars Þórs Elíassonar verslunarstjóra búðarinnar hefur töluvert vatn runnið til sjávar frá því verslunin opnaði fyrst, enda hefur fiskbúðin þurft að laga sig að neyslumynstri Íslendinga sem hefur verið í stöðugri þróun gegnum árin. „Í dag fáum við fiskinn í frauðplastbökkum eða álbökkum en á tímum Þjóðviljans fengu viðskiptavinir ýsuna sína flakaða og pakkaða inn í dagblaðapappír eða með vír í gegnum augun á heilum fiski,“ segir Arnar. Á tímabili fór fiskbúðum fækkandi eftir því sem heimavinnandi húsmæður fóru í auknum mæli á vinnumarkaðinn og vinsælla varð að versla í búðum með fjölbreyttara úrval. Þær höfðu þá ekki lengur tíma til þess að þræða sérverslanir og kusu heldur að kaupa hveiti, mjólk og fisk á einum stað. En Fiskbúðin Sundlaugavegi hefur ávallt haldið velli í öll þessi ár sökum tryggra viðskiptavina, hágæða þjónustu og góðs hráefnis.
Uppáhald stórfjölskyldunnar
„Ýsan stendur auðvitað alltaf fyrir sínu og má líklegast kalla þjóðarrétt Íslendinga. Svo erum við með þennan dæmigerða fjölskyldumat eins og plokkfisk, fiskbollur, ýsu í raspi og ýsu í mangó-karrýsósu. Plokkarinn okkar er klassík, enda hefur uppskriftin ekki breyst frá árinu 1986. Það hefur svo sem ekki þurft enda er plokkfiskurinn okkar víðfrægur fyrir það hvað hann er góður!“ segir Arnar.
Humarsúpa
Viðskiptavinirnir bera okkur reglulega þær fregnir hvað humarsúpan okkar sé gómsæt. Súpan er bragðmikil og gott fiskbragð af henni og bætir Arnar við að hægt sé að drýgja súpuna með pela af rjóma ef vill. „,Hún þolir það vel. Hún verður auðvitað aðeins öðruvísi, aðeins mildari fyrir vikið, en virkilega góð samt sem áður“ segir Arnar.
Saumaklúbbsréttur með rentu
Fiskbúðin Sundlaugavegi er með frábært úrval af góðum og ferskum fiski ásamt því að vera með heilt borð af ýmiss konar fiskréttum sem eru tilbúnir beint í ofninn. „Þeir eru alltaf vinsælir enda ótrúlega handhægir og ljúffengir. Svo erum við til dæmis með blandaðan fiskrétt með grænmeti og maríneruðum fiski, um 4-5 tegundir allt eftir því hvað er best hverju sinni. Við getum verið með löngu í þessu eða steinbít, lax eða surimi krabbakjöt. Þegar við vorum að byrja með þennan rétt kom kona sem ætlaði að hafa réttinn í saumaklubbi um kvöldið og dagana á eftir komu fleiri konur til þess að kaupa þennan rétt, sögðust hafa fengið svo ofboðslega góðan fiskrétt þarna um daginn hjá vinkonu sinni í saumaklúbbnum. Síðan þá hefur þessi réttur spurst út um allar trissur og fólk gerir sér ferð hingað sérstaklega til þess að gæða sér á lostætinu. Spænski saltfiskrétturinn okkar er líka alveg sjúklega góður og alltaf vinsæll. Það er náttúrulega allt gott hjá okkur. Við setjum ekkert vont í borðið,“ segir Arnar.
Nánari upplýsingar má nálgast á Facebooksíðunni Fiskbúðin Sundlaugavegi.
Sundlaugarvegi 12, Reykjavík
Sími: 568 6003
Opnunartímar:
Mán-fim: 09:00-18:30
Fös: 09:00-18:00
Lau: 11:00-14:00