Karlalið meistaraflokks Fram í handbolta tók forskot á sæluna í gær þegar strákarnir skelltu sér á Oche, nýjan veitinga-, skemmti- og afþreyingarstað, sem opnar á gamla Stjörnutorgi Kringlunnar næsta föstudag. Mikael Harðarson framkvæmdastjóri Oche Reykjavík segir að undanfarnir dagar hafi verið nýttir til að fá hina ýmsu hópa til að prófa herlegheitin og lét Framliðið til sín taka á shuffleborðum og píluspjöldum staðarins. Oche er mun tæknivæddari en svipaðir staðir hérlendis en keðjan er með staði meðal annars í Ástralíu, Bretlandi og Dubai. Á Oche í Kringlunni verða 15 pílubásar, eitt VIP herbergi, fimm shuffleborð, tvö karaokee herbergi og 300 sæti fyrir gesti til að gæða sér á veitingum. Rúnar Kárason, hægri skytta og fyrrum landsliðsmaður, var á meðal þeirra sem mætti í gær og var ekki annað að heyra en að honum þyki vel takast til.
„Þetta er virkilega vel heppnaður og flottur staður. Við strákarnir skemmtum okkur vel, mikil stemning myndaðist og þetta er ferlega sniðug leið til að þjappa hópum enn betur saman. Ég get ekki annað en mælt með þessu og á eftir að kíkja aftur. Og mögulega svo aftur eftir það,“ segir Rúnar.
Strákarnir tókust meðal annars á að shuffleborðunum og var Rúnar í Team Ödergeitinni en liðið var skírt í höfuðið á Magnúsi Öder Einarssyni. Í lok meðfylgjandi myndbands má skýrt heyra fagnaðaróp Rúnars og félaga þegar þeir höfðu betur.
„Jú ég get víst ekki þrætt fyrir það að keppnisskapið fór á fullt og að ég var líklega ekkert á lægstu tíðni þegar við unnum þarna á einu shuffle borðinu. Það er alltaf gaman að vinna og maður á það til að láta heyra aðeins í sér,“ segir Rúnar.