Kristín Scheving hefur unnið að undirbúningi afmælissýningarinnar frá árinu 2020. Mynd/Aðsend
Listasafn Árnesinga var stofnað fyrir tilstilli Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona hennar, sem gáfu sveitungum sínum safn listaverka árið 1963. Listasafnið verður 60 ára í ár og því verður afmælissýningin Hornsteinn opnuð á laugardaginn.
Listasafn Árnesinga var fyrsta listasafnið á Íslandi sem tók til starfa utan höfuðborgarinnar. Safnið geymir um það bil 550 verk sem því hafa verið gefin í gegnum árin, en upphafið má rekja til frumkvöðulsins Bjarnveigar Bjarnadóttur.
„Bjarnveig var Árnesingur og ötull listaverkasafnari. Árið 1963 ákvað hún að gefa sveitungum sínum safn sitt. Það má segja að Bjarnveig ásamt sonum hennar Lofti og Bjarna Markúsi hafi lagt hornsteininn að listasafninu með þessari rausnarlegu gjöf árið 1963. Gjöfin samanstóð af 41 listaverki og héldu mæðginin áfram að gefa safninu verk fram til ársins 1986, þá taldi safnið 75 listaverk,“ segir safnstjórinn Kristín Scheving.
„Bjarnveig var frænka Ásgríms Jónssonar þannig að hún var með listina í blóðinu. Henni fannst mikilvægt að sveitir landsins ættu sín listasöfn og talaði um það í viðtölum. Meðal verkanna sem hún gaf má finna verk merkustu meistara íslenskrar málaralistar á fyrri helmingi tuttugustu aldar. Þeirra á meðal 19 málverk eftir Ásgrím Jónsson og verk eftir Kjarval, Gunnlaug Scheving, Jón Stefánsson og Þorvald Skúlason meðal annarra,“ heldur Kristín áfram.
„Smekkur Bjarnveigar er eftirtektarverður sem og skynbragð hennar á nýja strauma eins og birtist í síðari gjöfum hennar. Hún lagði sig eftir verkum abstraktlistamanna, eftir Hörð Ágústsson og Kjartan Guðjónsson, en lagði líka mikið upp úr að gefa verk eftir íslenskar konur, má hér helst nefna Björgu Þorsteinsdóttur, Þorbjörgu Höskuldsdóttur og Ragnheiði Jónsdóttur.“
Gaf málverkin með heilum hug
Kristín segir að Bjarnveig, sem var fædd árið 1905, hafi verið ættuð af Suðurlandi, móðir hennar var frá bænum Skipum nálægt Stokkseyri og faðir hennar var Skaftfellingur. Móðir hennar og Ásgrímur Jónsson voru systrabörn og hún var þar að auki skyld Einari Jónssyni myndhöggvara í móðurætt.
„Heimili hennar var þakið listaverkum að því marki sem veggjarými leyfði og var það ekki algengt á þeim árum að einstæðar mæður verðu öllu sparifé sínu í listaverk,“ segir Kristín.
„Í ræðu sem hún hélt við Lista- og byggðasafn Árnessýslu árið 1974 sagði hún að málverkin væru gefin af heilum hug og með ósk um að gjöfin verði til menningarauka fyrir sýsluna og lyftistöng fyrir komandi kynslóðir.“
Hvernig verður safn til
Kristín tók við starfi safnstjóra fyrir þremur árum og segist strax hafa byrjað að undirbúa afmælissýninguna.
„Ég réð til starfa listfræðinginn Zsóka Leposa sem hefur frá sumrinu 2020 verið að taka fram öll verk úr safneigninni, rannsaka þau og skoða hvað þarf að laga, við erum einnig báðar sýningarstjórar sýningarinnar,“ segir Kristín.
„Við stefnum að því að nýta afmælisárið til að lagfæra ramma og verk þar sem þarf. Við ætlum að rannsaka og taka nýjar ljósmyndir af verkunum og gefa út sýningarskrá með úrvali verka úr safneigninni.“
Eins og áður segir telur safneignin núna um það bil 550 verk en á afmælissýningunni geta gestir séð 123 þeirra eftir 58 listamenn.
„Við þurftum að velja úr hvað við vildum sýna á þessari sýningu því við getum því miður ekki sýnt þau öll. Verkin sem safnið á höfum við flestöll fengið gefins. Við erum því miður ekki með fjármagn til að kaupa verk, en það verður vonandi í framtíðinni. Við erum því mjög þakklát fyrir þessari gjafir,“ segir Kristín.
„Á afmælissýningunni beinum við sjónum að því hvernig safn verður til. Kastljósinu verður aðallega beint að tveimur frumkvöðlum. Bjarnveigu og Halldóri Einarssyni. Okkur langar að fólk sjái hvað svona einstaklingsframtak eins og safn Bjarnveigar og Halldórs, getur haft ótrúleg áhrif. En að auki verða sýnd ný verk sem safninu hafa verið gefin undanfarin ár.“
Tvö hundruð tréverk og styttur
Halldór Einarsson var fæddur árið 1893 á bænum Brandhúsum í Gaulverjabæjarhreppi. 29 ára gamall hélt hann vestur um haf og bjó í Bandaríkjunum í 43 ár. Hann ánafnaði Listasafni Árnesinga öll verk sín þegar hann kom aftur heim árið 1965 ásamt tíu þúsund Bandaríkjadölum. Þetta eru tvö hundruð verk úr tré og litlar styttur, ýmist úr marmara eða beini. Verkin eru stór hluti safnsins, eða um þriðjungur þess.
Mikið af sterkum verkum
„Það eru fjórir salir á safninu og við munum taka þá alla undir sýninguna að þessu sinni. Oftast erum við með margar sýningar í einu sem standa þá styttra yfir. En af því við eigum svo mörg verk sem ekki hafa verið sýnd lengi langaði okkur að taka þau fram. Það verður skemmtilegt fyrir fólk að upplifa sýninguna, þetta er svo mikil blanda af verkum. Við eigum mikið af sterkum verkum sem fólk hefur örugglega séð áður og man eftir og örugglega líka verk sem fólk hefur aldrei séð og koma á óvart,“ segir Kristín.
„Við ætlum að fá fólk í heimsókn til að vera með leiðsagnir um sýninguna. Bæði ættingja listamannanna sem eiga verk þar og líka listamennina sem eru enn á lífi. Okkur langar líka að nota árið og taka viðtöl við fólk um minningar þess tengdar Bjarneyju Bjarnadóttur og um listamenn sem eiga verk á safninu. Viðtölin verða líklega opnir viðburðir svo fólk getur komið og fylgst með.“
Nýjungar fram undan
Auk afmælissýningarinnar er margt annað í gangi hjá Listasafni Árnesinga. Það má til dæmis nefna verkefnið Smiðjuþræði. Í því felst að fólk fer á vegum safnsins til skólanna í Árnessýslu með listasmiðjur og fræðslustarf.
„Þetta verkefni hefur verið ótrúlega gefandi og við erum mjög þakklát Barnamenningarsjóði fyrir að styrkja það. Það má geta þess að safnið fékk hæsta styrk á síðasta ári til að vinna að því verkefni,“ segir Kristín.
„Verkefnið hófst árið 2020 en við ætlum að vera með uppskeruhátíð í sumar. Þá verður ýmislegt í gangi, listamenn koma að utan og verða með smiðjur með okkur og ýmis verkefni verða í gangi sem tengjast afmælissýningunni. Einnig er skólunum boðið í heimsókn á safnið. Ég hvet fólk til að fylgjast með okkurá samfélagsmiðlum eða kíkja á vefsíðuna okkar til að fá nánari upplýsingar.“
Ásgrímsleiðin
„Við erum einnig í samstarfi við Byggðasafn Árnesinga á Eyrarbakka og Listasafn Íslands, Ásgrímssafn. Við ætlum að leggja sérstaka áherslu á Ásgrím Jónsson á árinu. Hann var Árnesingur og fæddur í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Við ætlum að búa til Ásgrímsleið sem liggur frá fæðingarstað hans og svo í Húsið á Eyrarbakka þar sem hann dvaldi sem unglingur og svo hingað í Ásgrímssalinn okkar og endar svo ferðalagið í Ásgrímssafni í Reykjavík, en þess má einnig geta að það var Bjarnveig Bjarnadóttir sem var fyrsti forstöðumaður Ásgrímssafns.“
Að lokum nefnir Kristín að safnið hafi nýlega fengið styrk frá ON og Landsbankanum fyrir lagfæringu á lóð safnsins.
„Við erum að fara að vinna með verkefnastjóranum Eddu Kristínu Sigurjónsdóttur og skoða hvað við getum gert til að gera lóðina okkar áhugaverðari. Lóðin er ágætlega stór en hluti af henni er bara gras og runnar. Okkar langar að gera meira úr henni, bæta við skúlptúrum og jafnvel koma upp stöðum þar sem gestir og gangandi geta náð sér í ber eða salat. Hveragerði er þekkt fyrir að vera grænn bær svo það er gaman að tvinna saman list og ræktun.“
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra opnar sýninguna Hornstein formlega klukkan 15.00 laugardaginn 11. febrúar. Sýningin mun standa yfir til 20. ágúst. Það er alltaf frítt inn á safnið.