Breska hljómsveitin Jethro Tull kemur fram í Eldborgarsal Hörpu fimmtudagskvöldið 4. maí 2023.
Sveitin hefur verið á ferð og flugi eftir að COVID-faraldurinn fór að fjara út og kemur fram á tónleikum sem bera yfirskriftina The Prog Years. Tónleikarnir í Eldborg bera sömu yfirskrift.
Miðasala hefst kl. 12 á hádegi fullveldisdaginn 1. desember á harpa.is og tix.is.
Jethro Tull er ein vinsælasta og áhrifamesta framúrstefnurokksveit sögunnar. Hún hefur um dagana komið fram á um 3.000 tónleikum og selt yfir 60 milljónir hljómplatna sem margar hverjar marka tímamót, svo sem Aqualung og Thick as a Brick. Sveitin hefur verið sjö sinnum á Íslandi og komið fram á alls tólf tónleikum, þar af tíu sinnum í Reykjavík, einu sinni á Akureyri og einu sinni á Akranesi. Sveitin sýndi íslenskum áheyrendum og Eldborg/Hörpu sérstakan heiður og viðurkenningu með því að taka þar upp tónleika og gefa út á diski 2012: Thick as a brick: Live in Iceland.
Performer skipulagði sex Íslandsferðir Jethro Tull frá 2006 til 2016 og annast líka tónleikana í vor, segir Birgir Daníel Birgisson framkvæmdastjóri fyrirtækisins: „Ian Anderson, stofnandi, leiðtogi og lagahöfundur Jethro Tull, fer ekki dult með að honum og hljómsveitinni líður hér vel. Íslendingar taka sveitinni alltaf opnum örmum og aðdáendahópurinn stækkar við hverja heimsókn. Tónlistarveisla Jethro Tull í Hallgrímskirkju fyrir jólin 2016 er til að mynda mörgum afar minnisstæð og nú þyrstir okkur í nýja veislu!“
„Jethro Tull er annars á mikilli siglingu og sendi nýlega frá sér fyrstu hljóðversplötuna í átján ár, The Zealot Gene. Sú fær afbragðs dóma, þykir að nokkru leyti tónlistarleg tilvísun í upphafsár sveitarinnar og komst inn á topp-10 vinsældalista í Bretlandi. Jethro Tull lætur ekki þar við sitja því væntanleg er ný hljóðversplata strax á vori komanda. Hún var tekin upp í júní og ágúst í sumar.
Gestir í Hörpu mega því gera ráð fyrir að heyra glænýtt og nýlegt efni í bland við þetta gamla og góða sem gert hefur hljómsveitina að því sem hún er. Sjálfur hef ég fylgst úr fjarlægð með Jethro Tull undanfarna mánuði og gerði ekki endilega ráð fyrir að Ísland kæmi upp í huga skipuleggjenda tónleikaferðalagsins. Svo var haft samband fyrir nokkrum vikum, allt fór á fleygiferð og samningar tókust um tónleika 4. maí 2023,“ segir Birgir Daníel að lokum.