Fyrirtækið Vélastilling hefur verið starfandi frá árinu 1975 og er enn rekið á upphaflegu kennitölunni. Sigurður Ingiberg Ólafsson stofnaði fyrirtækið en sonur hans, Ólafur Kr. Sigurðsson, sem ungur lærði bifvélavirkjun og fór að vinna á verkstæði föður síns, tók við rekstrinum fyrir nokkrum árum.
Nafn fyrirtækisins ber vitni um gamla tíma: „Það er ekkert til lengur sem heitir vélastilling en við erum í almennum bílaviðgerðum og hjólastillingum. Hér áður fyrr voru bílar með platínur og blöndunga og þess háttar, það var því um eiginlega vélastillingu að ræða en núna eru það bara tölvustýrðar stillingar, bilanagreining og þess háttar,“ segir Ólafur.
„Þetta er fyrirtæki sem hvílir á gömlum og traustum grunni en kennitalan er síðan 1975 og bankareikningurinn okkar er enn númer 16. Fólk hváir þegar það heyrir slíkt.“
Að sögn Ólafs útvegar Vélastilling alla varahluti sem þarf til viðgerða og gerir við flestallar bílategundir. „Þetta eru alls konar viðgerðir en kannski eru bremsubilanir algengustu vandamálin, það þarf að skipta um bremsuklossa og -diska, til dæmis.“
Fimm starfsmenn eru hjá Vélastillingu, fjórir sinna viðgerðum í fullri vinnu en fimmti starfsmaðurinn er í almennum skrifstofustörfum og útréttingum. Það er mikið að gera allt árið en þó aukast annir mjög mikið á vorin og oftast er rólegt í kringum jólin.
„Oft er mikið að gera í byrjun árs þegar viðskiptavinir leita til okkar fyrir bifreiðaskoðun. Við yfirförum þá allan bílinn og lögum það sem laga þarf.“
Vélastilling sinnir líka tjónamálum, einkum hjólatjónum: „Við erum með samninga við mörg réttingarverkstæði sem vottuð eru af tryggingafélögunum. Við erum sérfræðingar í hjólastillingum og komum því að málum þar sem hjólatjón hefur átt sér stað.“
Vélastilling er til húsa að Auðbrekku 19, Dalbrekkumegin. Ef þú þarft að fara með bílinn í viðgerð hringir þú fyrst í síma 554-3140 og pantar tíma. Eftir það er bíllinn þinn í traustum höndum fagmanna sem starfa á grunni sem lagður var árið 1975.
„Við erum duglegir að skutla fólki á meðan bíllinn er í viðgerð og sjáum til þess að fólk komist á milli staða,“ segir Ólafur.