Matarkjallarinn, sem staðsettur er í Grófinni í hjarta miðbæjarins, fagnaði tveggja ára afmæli í maí. Þar er boðið upp á fjölda rétta og fyrir pör eða litla hópa er tilvalið að panta nokkra og deila saman. Tvær vinkonur gerðu sér ferð þangað fyrir stuttu í fyrsta sinn og voru hæstánægðar með bæði staðinn og matinn.
Fjöldi drykkja er á vínseðli, Mojito on draft hljómaði skemmtilega og þar sem ég hef blandað ófáa slíka, aðallega í vinnu, þá varð ég að prófa einn slíkan. Vinkonan fékk sér Piscoteka, sem inniheldur pisco, grenadine og eggjahvítur. Báðir einstaklega góðir, en ég myndi samt bara fá mér einn og prófa svo annan kokteil í næstu umferð, það er ef ég ætlaði að fá mér fleiri en einn.
Forréttir og réttir hússins mæta í tveimur hollum
Við ákváðum að panta nokkra rétti í forrétt: gæs með geitaosti og pekanhnetum, nauta carpaccio með parmesan og möndlum, heilbakaðan brieost með lautarhunangi og heslihnetum og spicy andavængi með vorlauk og chili. Eins og sjá má af upptalningunni var nokkuð um ost og hnetur, sem er kannski ekki fyrir alla, en við erum að elska þetta. Ég byrjaði auðvitað á því sem hendi var næst: grafinni gæs, sem var alveg hreint geggjuð, en pínu klúður að byrja ekki á spicy andavængjunum, því þeir voru ekki lengur heitir þegar ég færði mig í þá en bara mín mistök. Vinkonan var hins vegar vitrari og byrjaði þar og kláraði sinn skammt með mikilli ánægju. Við vorum langsælastar með spicy andavængina, nauta carpaccio (sem ég gæti borðað í morgunmat alla daga) og heilbakaða brieostinn (næst pöntum við klárlega tvo slíka).
Aðalrétturinn – bland af því besta
Á meðal aðalrétta er steikarplanki, sem inniheldur naut, lamb, svín og humar. Sem betur fer fyrir mig kann vinkonan ekki að borða humar, þannig að ég sat ein að honum, crunchy, kryddaður og góður, akkúrat eins og ég myndi elda hann, ef ég kynni að elda!
Ljónið lauk máltíðinni
Eftirrétturinn sem varð fyrir valinu var Lion bar súkkulaði með rifsberjum og saltkaramellusósu og viðn vorum ekki lengi að ráða niðurlögum ljónsins og klára eftirréttinn.
Við erum ekki mikið fyrir fisk og höfnuðum því tígrisrækjum þegar þjóninn stakk upp á þeim. Konan á næsta borði, fékk okkur hins vegar til að iðrast þeirrar ákvörðunar, því tígrisrækjurnar koma á borðið í gríðarlega flottri Skull-könnu og ég hlýt að geta samið um að fá að kaupa könnuna líka næst þegar ég kem! Henni virtist líka líka vel við rækjurnar, tékka á þeim næst!
Happy Hour hefst seint – skemmtileg stemning við flygilinn
Fyrir gesti sem eru seint á ferðinni á föstudags- og laugardagskvöldum þá hefst Happy Hour kl. 23 og stendur til kl. 1 og þá tilvalið að koma í kokteila eða rétti til að deila (já, eða halda áfram eftir matinn í Happy Hour). Allir réttirnir sem við smökkuðum eru tilvaldir til að deila og smakka, þá jafnvel fleiri en tvo eða þrjá. Fyrir gesti Menningarnætur hentar vel að horfa á flugeldasýninguna og kíkja svo á Matarkjallarann, þar sem myndast skemmtileg og kósí stemning við flygilinn í fremri salnum.
Matarkjallarinn er í Aðalstræti 2 og borðapantanir eru í síma 558-0000 eða á heimasíðu staðarins.
Matarkjallarinn er líka á Facebook.
Opnunartími er virka daga frá kl. 11.30–15 og kl. 17–23 öll kvöld, Happy Hour föstudags- og laugardagskvöld kl. 23–1.