Fyrirtækið Bíóbú sérhæfir sig í vinnslu á lífrænum mjólkurafurðum. Stofnendur eru hjónin Kristinn Oddsson og Dóra Ruf að Neðra-Hálsi í Kjós, sem er elsta sjálfstæða mjólkurbúið. Fyrirtækið byrjaði sem tilraun, en á býli þeirra myndaðist umframmjólk sem MS hafði ekki áhuga á að nýta. Hjónið stofnuðu því Bíóbú og fyrst komu þrjár tegundir af jógúrt á markað.
Vörunum var vel tekið af neytendum og bæst hefur við vöruframboðið, en vörur Bíóbú eru í sölu í helstu verslunum um land allt. „Í dag framleiðum við 15 vörutegundir; jógúrt, skyr, gríska jógúrt, mjólk og rjóma,“ segir Helgi Rafn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Bíóbú, en þar starfa í dag 10 manns.
Vörurnar komu á markað 3. júní 2003 og fagnar því fyrirtækið 15 ára afmæli núna um sjómannadagshelgina. „Við höldum júní í heiðri,“ segir Helgi Rafn. „Afmælisvara er þó ekki á leið í verslanir, en hins vegar er vöruframboðið í sífelldri þróun og nokkrar nýjungar í vinnslu. Það er margt á döfinni hjá okkur, á næstu misserum koma fleiri nýjungar í ljós og vöruúrvalið verður aukið, sem dæmi má nefna að við erum að setja sýrðan rjóma á markað.“
Vinsælasta staka varan er mangójógúrtin og er hún jafnframt söluhæsta jógúrtin á landinu. Þess má líka geta að Bíóbú var fyrst mjólkurfyrirtækja til að framleiða gríska jógúrt og setja á markað. „Hún sló rækilega í gegn og núna eru allir farnir að framleiða gríska jógúrt,“ segir Helgi Rafn.
„Mig langar að koma á framfæri þakklæti til neytenda okkar, sem hafa verslað og látið sér líka við vörur Bíóbú.“
Allar upplýsingar um Bíóbú og vörur fyrirtækisins má fá á heimasíðunni, Facebook og í síma 587-4500.