Bogfimisetrið var stofnað árið 2012 og er vinsælt hjá fjölskyldum, pörum, starfsmanna- og vinahópum að koma og æfa sig í bogfimi. Einnig mætir fjöldi iðkenda á öllum aldri reglulega og æfir sig.
Í sumar býður Bogfimisetrið upp á sumarnámskeið fyrir börn og ungmenni á aldrinum 12–20 ára. Námskeiðin fara fram í júní og júlí og eru tvær æfingar á viku, mánudaga og miðvikudaga, frá kl. 16–17.30, þar sem iðkendur mæta og skjóta með þjálfara sem kennir. Námskeiðin er 8 vikur í heildina og kostar 25.000 kr. Allur búnaður fylgir, það þarf ekki að eiga boga eða annan búnað.
Iðkendum er skipt upp eftir getu frekar en aldri, en svæðin eru tvö: 12 metra braut og 18 metra braut. Á þessum 8 vikum geta iðkendur mætt utan námskeiðstímanna á öðrum tímum og æft sig að skjóta.
„Bogfimin er vinsæl hjá öllum aldurshópum og það er enginn of ungur eða of gamall til að æfa bogfimi,“ segir Ásdís Hafþórsdóttir hjá Bogfimisetrinu. „Yngsta barnið sem hefur skotið af boga hér var þriggja ára.“
Bogfimisetrið er í Dugguvogi 2 og fer skráning fram í síma 571-9330 alla daga frá kl. 16–22 og á netfanginu bogfimisetrid@bogfimisetrid.is.