fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Kynning

Ekki láta plata þig

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 1. apríl 2018 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Safakúrar, glútenlaust mataræði, ofurfæðutegundir og hráfæði. Allt eru þetta hugtök sem heyrast reglulega nú um stundir þegar sífellt fleiri freista þess að tileinka sér heilbrigðari lífsstíl. En getur verið að margt af því sem við heyrum sé ýkt og jafnvel ósatt?

Pixie Turner er breskur lífefna- og næringarfræðingur sem skrifaði áhugaverðan pistil fyrir Mail Online fyrir skemmstu. Þar leitast hún við að taka saman og hrekja, á vísindalegan hátt, ýmislegt það sem fullyrt er um þær stefnur og strauma sem eiga upp á pallborðið í sambandi við mataræði.

Miðað við það sem Turner segir er víða pottur brotinn hvað þetta varðar. Í samantekt sinni fjallar hún meðal annars um svokallaða detoxkúra, glútenlaust mataræði, basískt mataræði, ofurfæðu og hráfæðu, en allt eru þetta stefnur og straumar sem sífellt fleiri styðjast við þegar næring er annars vegar.


Mýtan um detox

„Hversu oft hefur þú heyrt einhvern lofsama svokallaða detoxkúra, kúra sem eiga að hreinsa líkamann af öllum eitruefnum og gefa okkur orku?“ spyr Turner. Hún segir að detoxkúrarnir svonefndu séu ekki endilega allir þar sem þeir eru séðir.

„Byrjum á djúskúrunum,“ segir hún og bendir á að þeir feli í sér að ávaxta- eða grænmetissafi sé drukkinn í nokkra daga. Fólk er jafnan hvatt til að nota einungis lífrænt grænmeti eða ávexti og helst kaldpressaðan ef um tilbúinn safa er að ræða, ekki þennan dæmigerða djús sem þú kaupir í fernum úti í búð.

„Talsmenn þessa kúrs segja að hann „vökvi frumurnar“ og gefi húðinni hraustlegt útlit. Þá hjálpi þeir okkur að léttast og gefi okkur meiri orku,“ segir Turner og bætir við að þetta eigi ekki endilega við rök að styðjast. Í fyrsta lagi séu þessir drykkir rýrir af trefjum og oftar en ekki mjög sætir. Í öðru lagi er próteinmangnið lítið og ef um hreinan grænmetissafa er að ræða þá eru þeir mjög kolvetnasnauðir. Það gerir það að verkum að fólk verður orkulaust og þreytt.

„Þeir geta einnig verið dýrir og leiða ekki til neinnar breytingar þegar til lengri tíma er litið,“ segir hún og bætir við að fólk geti vissulega lést á kúrnum. En, nokkrum dögum síðar, verði allt komið í sama horf og áður.

Turner nefnir svo vinsældir sítrónusafans að lokum. Sumir kreista sítrónusafa út í heitt vatn og á safinn að „hreinsa líkamann“ og „vekja starfsemi lifrarinnar“ eins og Turner segir á. Eru þeir ófáir sem byrja daginn á að fá sér eitt glas af sítrónusafa. „Fyrir það fyrsta þarf ekki að vekja lifrina. Ef lifrin í þér færi að sofa á sama tíma og þú þá myndir þú líklega ekki vakna aftur. Í öðru lagi benda tannlæknar á að það sé ekki ráðlagt fyrir fólk að baða tennurnar í sítrónusýru á hverjum degi.“

Mýtan um glúten

Sífellt fleiri hafa tileinkað sér glútenlaust mataræði. Til að gera langa sögu stutta er glúten prótein sem finnst í korni; hveiti, höfrum, byggi og rúgi til dæmis. Líklega má rekja þessa tískubylgju til þeirrar staðreyndar að lítill hluti mannkyns þjáist af glútenóþoli eða glútenofnæmi. „Glúten er eins og sandpappír fyrir magann,“ heyrist stundum.

Turner segir að vissulega séu stundum góðar og gildar ástæður fyrir því að borða ekki glúten. Þetta eigi við um þá sem raunverulega eru með glútenóþol eða glútenofnæmi. Þeir sem eru með ofnæmi fyrir hveiti ættu einnig að halda sig frá glúteni. „En við hin þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur,“ segir hún og bendir á að innan við fimm prósent mannkyns falli í fyrrgreinda flokka og þurfi í raun að forðast glúten.

„En samt er talið að um tólf prósent Breta borði ekki glúten. Þetta þýðir að mikill fjöldi fólks sneiðir hjá glúteni án þess að þurfa þess,“ segir hún. En hvað með þá sem segja að þeim líði illa í maganum, til dæmis eftir að hafa borðað brauð eða pasta? Eru þeir að segja ósatt? „Nei, ekki endilega,“ segir Turner. „Það er margt sem getur valdið óþægindum í maga. Ef einhver upplifir óþægindi, til dæmis eftir að hafa borðað stóra skál af pasta, geta óþægindin stafað af því að viðkomandi borðaði of mikið, of hratt eða tyggði matinn ekki nægilega vel,“ segir hún.

Turner segir svo að lokum að glútenlaust mataræði sé ekki endilega hollt fyrir kroppinn. „Aðrir valkostir eru oft sykur- og fituríkari,“ segir hún og bendir á að samhengi sé á milli þess að borða ekki glúten og fjölda góðgerla í þarmaflórunni. Þeir eru færri hjá þeim sem sneiða hjá glúteni. „Lykillinn að góðri meltingarstarfsemi er fjölbreytt fæða og hún má vissulega innihalda glúten svo lengi sem þú ert ekki raunverulega með óþol eða ofnæmi.“

Mýtan um basískt mataræði

Þeir sem aðhyllast basískt mataræði segja gjarnan að líkaminn vinni best í basísku umhverfi og veikindi og sjúkdóma megi oft rekja of hás sýrustigs í líkamanum.

„Málsvarar þessarar stefnu segja að það sem við borðum og drekkum hafi áhrif á pH-gildið í líkamanum, blóðinu þar á meðal. Þess vegna þurfum við að leggja áherslu á að borða basískt fæði (ávexti og grænmeti fyrst og fremst) og sneiða hjá súrum fæðutegundum (mjólkurvörum og kjöti fyrst og fremst).

„Í næringarfræðilegu tilliti er allt sem hvetur til meiri neyslu á ávöxtum og grænmeti af hinu góða, sérstaklega í ljósi þess að flestir viðurkenna að þeir borði ekki fimm ávexti á dag, eða sem því nemur,“ segir Turner og bætir við að vandinn sé helst órökstuddar fullyrðingar í tengslum við þessa tegund mataræðis. „Því er haldið fram að þeir sem borða of mikið af súrum fæðutegundum þjáist frekar af streytu, kvíða, þreytu, höfuðverk, svefnleysi og of háum blóðþrýstingi,“ segir hún og bætir við að hinir sömu haldi því fram að basískt mataræði stuðli að betri þyngdarstjórnum, betri húð og geti jafnvel stuðlað að lækningu á hættulegum sjúkdómum, krabbameini þar á meðal.

„Sannleikurinn er sá að líkaminn hefur mjög góða stjórn á sýrustiginu,“ segir Turner og bætir við að pH-gildi blóðs sé á bilinu 7,35 til 7,45. Allt fyrir neðan 7,35 sé álitið of súrt en fyrir ofan of basískt. „Líkaminn stýrir sýrustigi blóðsins mjög nákvæmlega því miklar sveiflur geta beinlínis verið banvænar. Að vera „of súr“ er eitthvað sem þú breytir ekki með mataræðinu. Að vera of basískur er jafn alvarlegt,“ segir hún og bætir við að hvort tveggja þurfi læknar að skoða.

Hún endar á að segja að súrt mataræði, það er mataræði sem samanstendur að of litlu leyti af ávöxtum og grænmeti, sé vandamál víða á Vesturlöndum. En það sé ekki vegna þess að það geri líkamann eða blóðið súrt.

Mýtan um ofurfæðuna

Ofurfæða er tískuorð sem hefur átt upp á pallborðið hjá mörgum á undanförnum árum. Turner nefnir sem dæmi kókosolíuna sem af einhverjum ástæðum hefur fengið stimpilinn ofurfæða. „Kókosolía er 85% mettuð fita. Munið það að samhengi er á milli mataræðis sem inniheldur mjög hátt hlutfall mettaðrar fitu og hjartasjúkdóma. Þökk sé góðri markaðsherferð er kókosolían komin á stall sem ofurfæða.“

Sem dæmi má nefna þá fullyrðingu að kókosolía stuðli að aukinni brennslu þökk sé samsetningu fitusýruhlekkja í henni. Þeir séu miðlungs (MCT) á meðan aðrar olíur innihaldi langa hlekki (LCT). Þannig geymi líkaminn LCT-fitu sem fituforða en noti MCT til brennslu. Þess vegna, eins öfugsnúið og það hljómar, sé hægt að brenna fitu með því að borða fitu.

„Hér eru vísindin. MCT hefur á bilinu 8–10 kolefnissameindir en Lauric-sýran, aðalfitusameindin í kókosolíunni, hefur 12 kolefnissameindir. Þess vegna telst hún í raun ekki til MCT.“

Turner segir að kókosolía sé í raun hvorki góð né slæm, ekkert frekar en smjör sem ekki á að borða í óhófi. „Þetta er mettuð fita og ég get ekki með góðri samvisku hvatt fólk til að, til dæmis, setja hana út í kaffið eða hafragrautinn.“

Turner nefnir svo vinsæla „ofurfæðu“ sem notið hefur vinsælda á undanförnum árum. Dæmi um það er afríski ávöxturinn baobab sem Turner segir að sé í raun mjög dýrt C-vítamín. „Ef þig vantar C-vítamín skaltu borða ávexti og grænmeti sem innihalda C-vítamín – appelsínur og ber til dæmis.“

Maca-rótin er sögð gefa aukna orku og er oftar en ekki seld í duftformi. „Þú getur í raun alveg eins fengið þér kaffi. Kaffi er ekki óhollt, þvert á móti hafa rannsóknir sýnt að það er meinhollt. Einn bolli, 350 millílítrar á dag, minnkar líkurnar á að maður deyi fyrir aldur fram um allt að tólf prósent. Ef maður er orkulaus gæti það verið merki um að maður þurfi að borða meira eða þurfi fæðutegundir sem innihalda B12 eða járn.“

Turner nefnir svo spirulina sem er í raun prótínríkur þörungur. „En það er hægt fá prótín á mikið ódýrari hátt en með því að borða spirulina. Kál, sveppir, hnetur, fræ og baunir eru frábær uppspretta prótíns – og bragðast ekki eins og vatn í tjörn.“

Hveitigras er fæða sem margir telja að geti gert kraftaverk. Sumir segja að hveitigras geti hjálpað líkamanum að losna við eiturefni, það sé gott fyrir lifrina, bæti meltingu og efnaskipti og dragi úr bólgum í líkamanum. „Hveitigras er í raun ekkert einstakt. Það inniheldur vissulega vítamín og steinefni alveg eins og annað grænmeti en ekki endilega í meira magni. Ef þér finnst það gott skaltu fá þér hveitigras, það mun ekki skaða þig. Ef ekki þá skaltu fá þér grænmeti sem bragðast betur.“

Turner nefnir svo acai-berin að lokum sem sögð eru innihalda ógurlega mikið af andoxunarefnum. Þá eru þau sögð stuðla að þyngdartapi. Turner segir að fólk geti alveg eins borðað annað grænmeti og aðra ávexti sem innihalda einnig mikið af andoxunarefnum. Hættan við acai-berin geti verið að þau innihalda of mikið af vítamínum sem gerir líkamanum ekki gott.

Mýtan um hráfæðið

Þeir sem aðhyllast hráfæði segja að óeldaður matur, eða því sem næst, sé hollari en eldaður matur. Almenna reglan í hráfæði er sú að maturinn sé ekki eldaður upp fyrir 47 gráður, en það á að gera að verkum að mikilvæg ensím í matnum haldist heil og líkaminn þurfi að nota litla orku til að melta matinn.

Turner segir að hráfæði innihaldi vissulega góð ensím og eldun geri það að verkum að þau skemmast. „En veistu hvað annað skemmir þessi ensím? Meltingarfærin þín,“ segir Turner og bendir á að sýrustigið í meltingarveginum sé á bilinu 2–3. „Líkami okkar getur ekki nýtt plöntuensím, þau brotna niður í meltingarveginum alveg eins og allt annað prótín. Líkaminn notar svo amínósýrurnar úr niðurbrotinu til að búa til önnur prótín.“

Turner segir að það borgi sig að elda matinn, að minnsta kosti til að takmarka líkurnar á að hættulegar bakteríur komist lifandi ofan í meltingarveginn og valdi þar óskunda. Hún bendir þó á að eldun geti brotið niður ákveðin vítamín en stundum geri eldunin líkamanum auðveldara að nota þessi vítamín. Þetta fari allt eftir matnum. Turner segist ekki mæla með því að maturinn sé eldaður of mikið – „Þarna, eins og í svo mörgu öðru, gildir hinn gullni meðalvegur.“

einar@dv.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
14.05.2024

Vodafone gerir tímamótasamning um internettengingar í bíla

Vodafone gerir tímamótasamning um internettengingar í bíla
Kynning
09.05.2024

UAK 10 ára – Ráðstefna á laugardaginn

UAK 10 ára – Ráðstefna á laugardaginn
Kynning
27.03.2024

Dreymir þig um lúxussiglingu um fallegustu eyjur Króatíu? – Gerðu drauminn að veruleika 

Dreymir þig um lúxussiglingu um fallegustu eyjur Króatíu? – Gerðu drauminn að veruleika 
Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
28.12.2023

Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 243.500kr

Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 243.500kr
KynningMatur
22.12.2023

Skúbblerone er nýr hátíðarís hjá Skúbb

Skúbblerone er nýr hátíðarís hjá Skúbb
Kynning
06.11.2023

Æfinga eða keppnisferð íþróttafélaga í útlöndum

Æfinga eða keppnisferð íþróttafélaga í útlöndum
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“