Hamingjuhornið: Hugvekja um karlmennsku
Anna Lóa Ólafsdóttir er menntaður náms- og starfsráðgjafi með diplóma í sálgæslu. Á Facebook heldur hún úti Hamingjuhorninu, sem stofnað var árið 2011. Á Hamingjuhornið birtir hún reglulega fróðlega og innihaldsríka pistla um þætti sem snúa að samskiptum, persónulegum áskorunum og lífsins leyndardómum Í þeim nýjasta fjallar hún um karlmennskuna og skoðanir okkar og þrýsting frá samfélaginu um hvernig karlmennskan eigi að vera og hvaða skilaboð það gefur karlmönnum.
Við gefum Önnu Lóu orðið:
Hugvekja um karlmennsku!
Hver einasti karlmaður hefur skoðun á því hvað felst í því að vera karlmaður. Það hefur mikil áhrif á sjálfsmyndina ef maður er ósáttur við það hvernig maður upplifir sig en það er svo ótrúlega margt sem hefur áhrif á þessa upplifun. Fyrir utan samfélagsmiðla og netæði nútímamannsins þá hefur menningarlegur bakgrunnur, líkamleg geta/fötlun, kynhneigð, trúarbrögð, fjölskylda og fleira áhrif á okkur. Þrátt fyrir að öll séum við einstök þá erum við enn að búa við þann veruleika að það er þrýstingur frá samfélaginu um hvað sé norm og hvað ekki þegar kemur að karlmennskunni. Þrátt fyrir að við tölum mikið um það að kerfið sé að bregðast ungum karlmönnum þá megum við ekki gleyma að kerfið erum við og því mikilvægt að hver og einn skoði sjálfan sig og eigin hugmyndir varðandi þetta.
Hvort sem við viðurkennum það eða ekki þá er þrýstingur frá samfélaginu varðandi það hvernig karlmenn eiga að haga sér, líða og hugsa sem hefur auðvitað áhrif á hvernig þeir bregðast við ólíkum aðstæðum. Það er misræmi í skilaboðum okkar því um leið og við segjum að það sé mikilvægt að við tjáum tilfinningar okkar þá eru viðbrögðin líka svolítið „en ekki láta mig heyra það né sjá“!
Þessi skilaboð geta gert það að verkum að sumir karlmenn upplifa:
· að þeir þurfi einir takast á við vandamál
· að þeir þurfi alltaf að hafa stjórn
· að það sé töff að sýna takmarkað af tilfinningum
· að það sé styrkleikamerki að viðurkenna aldrei veikleika
Þrátt fyrir að þessir þættir geti verið gagnlegir í ákveðnum aðstæðum (á ögurstundum og í neyðarástandi) þá geta þessi skilaboð verið mjög skaðleg þar sem þau ýta undir þann veruleika að karlar einangra sig og verða hikandi við að segja frá því sem er að gerast hjá þeim. Oftar en mig langar að muna hef ég heyrt lýsingu á tilfinningaríkum karlmönnum sem viðkvæmum körlum sem mega ekkert aumt sjá, og að sjálfsögðu í hæðni. Maðurinn er tilfinningavera – við skulum ekki gleyma því, og beinlínis hættulegt heilsu okkar að loka á tilfinningar og ætla að fara í gegnum lífið á vélrænan hátt.
En skilaboðin geta orðið til þess að karlmenn meta sjálfan sig og dæma á neikvæðan hátt. Þeir gera jafnvel óraunhæfar kröfur til sín um að „manna sig upp“ – „að berjast í gegnum“ og „bara halda áfram“. Sumir gætu nú hugsað; þetta hefur allt breyst, þú ert að lýsa eldgömlum viðhorfum. Nei, því miður þá hef ég í starfi mínu sem ráðgjafi hitt allt of marga karlmenn sem finnst þeir verða að vinna sig einir í gegnum vandamál og áskoranir og trúa því að það sé merki um veikleika að biðja um aðstoð við persónulegum vandamálum, erfiðum hugsunum eða tilfinningum. Mín upplifun er sú að þegar erfiðar tilfinningar koma upp hjá karlmönnum loka þeir oft fyrir tjáningu en það sem við þurfum öðru fremur þegar við erum að takast á við erfiða tíma eru einmitt tengsl og tjáning. Ef við fáum ekki að tjá okkur um líðan okkar og upplifum okkur óeðlileg á einhvern hátt er meiri hætta á að við finnum leiðir til að deyfa. Við getum deyft með ýmsu móti en áfengi og önnur fíkniefni, matur, ótímabær sambönd, kynlíf og líkamsrækt eru líklega algengasta leiðin.
Tengslin við aðra eru líka til að rjúfa einangrun – að viðkomandi upplifi sig ekki einan með þessar hugsanir og tilfinningar en staðreyndin er sú að þöggun á erfiðum tilfinningum og áföllum leiðir oftar en ekki til sjúklegs ástands. Við megum aldrei vanmeta styrkinn og stuðninginn sem felst í því að vera til staðar.
Það er áskorun fyrir okkur sem samfélag að við séum meðvituð um þessa hluti og hvernig við getum unnið að því að ALLIR nýti sér möguleika til að sækja sér hjálp og stuðning þegar þurfa þykir. Að sitja fastur inni með erfiðar hugsanir og tilfinningar vegna þess að maður telur það vera einu leiðina sem er í boði getur leitt af sér mun stærri vanda þegar fram í sækir því hlutirnir hverfa ekki með þögninni.
Þetta voru mínar hugleiðingar í dag.