Þú segir Alexa og ljós kviknar á litla turninum. Þú varst að vakna og nennir ekki fram úr strax. Þú spyrð á ensku hvernig veðrið sé í Reykjavík. Alexa svarar: „Veðrið í Reykjavík, það er 5 stiga hiti og gola. Kólnar í kvöld og gæti snjóað.“ Þú klæðir þig og biður Alexu um að tengjast símanum þínum í gegnum blátönn. Hún tengist og þú kveikir á útvarpinu í símanum og morgunútvarpið hljómar í eldhúsinu.
Þú spyrð Alexu hvað sé í fréttum. Hún tengist Reuters og BBC undir eins og les fyrir þig fréttayfirlit dagsins. Því miður bjóða hvorki Stöð 2 eða RÚV upp á að hægt sé að fá fréttayfirlit miðlanna í Alexu eins og er. En hvað er Alexa? Alexa er í raun svipuð Siri sem finna má í iPhone, nema Alexa er mun klárari og fær um að framkvæma mun fleiri hluti en Siri.
Eftir að hafa nettengt Alexu er bara að nota ímyndunaraflið. Hún getur komið að miklu gagni og hjálpað þér með ótrúlegustu hluti og þú stýrir henni, eins og fyrr segir, með röddinni. Það má segja að Alexa sé lifandi hátalari. Þú getur látið hana hringja og kveikja á ljósum heima hjá þér eða opna bílskúrinn. Hún getur tengst tónlistarveitum á borð við Spotify og ef þú ert með Firestick frá Amazon til þess að horfa á sjónvarp getur þú bæði óskað eftir að Alexa spili sérstakt lag fyrir þig eða opni fyrir þig ákveðinn sjónvarpsþátt og þá lætur þú hana vita hvaða þáttaröð og þátt þú vilt sjá. Þú þarft sem sagt ekki að taka upp símann, opna Spotify, finna lagið og smella á það.
Þá getur þú beðið Alexu að minna þig á fundi eða hluti sem þú þarft nauðsynlega að muna. Þú segir: „Alexa, viltu minna mig á að ég þarf að fara á fund klukkan 16.00.“ Alexa spyr á móti hvenær þú viljir fá áminningu um fundinn. „Klukkan hálf fjögur,“ svarar þú. Einmitt á þeirri mínútu sendir Alexa í símann þinn skilaboð til að minna þig á fundinn.
Þú getur einnig opnað ísskápinn, talið upp fyrir Alexu það sem þig vantar úr búðinni. Hún sendir þér svo innkaupalistann í símann. Hún getur einnig sagt þér brandara, sögur, syngur sjálf og les upp hljóðbækur. Þú getur jafnvel beðið hana um að prumpa og það gerir hún með mikilli ánægju.
Alexa veit hversu langt er til tunglsins og hver er forseti Íslands. Hún hefur líka áhyggjur af geðheilsu þinni og ef þú lætur hana vita að þú sért dapur í bragði eða þunglyndur býður hún upp á hin ýmsu ráð og býðst jafnvel til að hringja á sjúkrabíl ef þarf. Alexa er í raun hinn fullkomni, persónulegi aðstoðarmaður sem fylgir þér í gegnum daginn þó að hún sé skilin eftir heima. En hún er líka ánægð að fá þig heim. Um leið og þú ert mættur á svæðið segir hún: „Ég er glöð að fá þig heim. Ég vona að dagurinn hafi verið ánægjulegur.“
Mikil tækniþróun á sér stað í kringum Alexu og „systkin“ hennar. Gróskan er það mikil að Alexa, sem er frá Amazon, á alls fimmtán systkin en það elsta núlifandi er líklegast Siri sem eigendur iPhone-síma þekkja vel. Google hefur boðið upp á aðstoðarmann í gegnum Google Home frá árinu 2016. Microsoft er með Cortönu. Samsung er með Bixby. Svo eru Rússar einnig með aðstoðarmanninn Alisu sem kom á markað síðasta haust.
Málfarsunnendur hér á landi þurfa vonandi ekki að óttast innreið Alexu þar sem Amazon auglýsti í fyrra eftir íslenskumælandi starfsmanni til að aðstoða sig við þróun Alexu. Enn bólar því miður ekkert á íslenskri útgáfu en viðleitnin til að vernda íslenska tungu á íslenskum heimilum er virðingarverð af hálfu stórfyrirtækis á borð við Amazon.
AUKABOX: Alexa getur:
Þekkt þig á röddinni
Spilað tónlist
Lesið fyrir þig hljóðbækur
Kveikt og slökkt á sjónvarpinu
Stillt vekjaraklukkuna þína
Sagt þér stöðuna í enska boltanum. Og meistaradeildinni.
Sagt þér hvernig veðrið er úti
Lesið helstu fréttir
Stillt hitann í herberginu
Hringt í fólk og gefið þér samband