Laukur er ríkur af B-, C- og G-vítamínum, próteinum, sterkju og lífsnauðsynlegum frumefnum. Hann er því virkilega hollur fyrir okkur en það sem við borgum fyrir kosti lauksins eru tárin sem við fellum þegar við skerum hann niður.
Það eru þó til nokkur góð húsráð til þess að draga úr táraflóðinu:
- Hægt er að hita laukinn áður en hann er skorinn niður til dæmis með því að setja hann í örbylgjuofninn í um 30–40 sekúndur.
- Einnig er gott ráð að frysta laukinn áður en hann er skorinn niður. Best er að afhýða laukinn og leyfa honum að liggja í frystinum í um það bil hálftíma.
- Þriðja ráðið hljómar kannski furðulega en það virkar. Áður en þú hefst handa við að skera niður laukinn settu þá brauðsneið upp í þig og leyfðu henni að hanga á milli varanna. Brauðið virkar eins og svampur og mun það draga í sig megnið af efninu sem fær okkur til þess að gráta áður en það kemst upp að nefi þínu og augum.