Við tökum alltaf vel á móti ferðafólki
Sveitarfélagið Fjallabyggð varð til við sameiningu Ólafsfjarðar og Siglufarðar árið 2006. Í Fjallabyggð búa um 2.100 manns sem taka ætíð einstaklega vel á móti ferðamönnum og útivistarfólki. Í Fjallabyggð er fjölbreytt menningarlíf og upplífgandi andrúmsloft. Það skiptir ekki máli á hvaða árstíma ferðast er til Fjallabyggðar, þar er alltaf margt skemmtilegt að skoða og gera.
Fjallabyggð býr að stórbrotinni náttúrufegurð í „faðmi fjalla blárra“, eins og skáldið sagði, þar sem möguleikar á sviði útivistar og tómstunda eru hreint óþrjótandi. Náttúran er ávallt innan seilingar, hvort heldur haldið er í gönguferðir, skellt sér á skíði eða veitt í vötnum, ám eða sjó, ásamt fjölþættum gönguleiðum um fjöll og dali. Við slíkar aðstæður hefur nær ósnortið og friðsælt náttúrufar Héðinsfjarðarins notið mikillar hylli hjá ferðafólki. Gönguleiðakort eru fyrirliggjandi á heimasíðunni; fjallabyggd.is.
Í Fjallabyggð er nægur snjór í fjöllunum og allsstaðar hægt að finna tækifæri og aðstöðu til útiveru. Á veturna er staðurinn skíðaparadís og draumur útivistarmannsins. Hægt er að fara á svigskíði, gönguskíði, skauta, þeytast um á snjósleða eða á vélsleða og hinir friðsælu geta dorgað í Ólafsfjarðarvatni. Svo er ætíð tilvalið að skella sér í sund í rómuðum sundlaugum Fjallabyggðar. Um páskana verður svo fjölbreytt menningar- og afþreyingardagskrá á boðstólnum í Fjallabyggð.
Í Fjallabyggð eru tvö skíðasvæði: Skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði og Skíðasvæðið í Tindaöxl í Ólafsfirði. Heimamenn hafa verið töluvert heppnari með skíðaveður en borgarbúar og hafa því getað mundað skíðin sín og brettin síðan í desember. Það er allaf gleði í fjöllunum í Fjallabyggð.
Skíðasvæðið í Skarðsdal má tvímælalaust telja með bestu skíðasvæðum landsins. Þar er oftast svo mikill snjór að hægt er að skíða langt fram á vor. Á svæðinu eru nú þrjár lyftur, tvær samfelldar: diskalyfta og T-lyfta, samtals um það bil 1.500 metrar að lengd. Þriðja og efsta lyftan er 530 metra löng með um 180 metra fallhæð og afkastar hún um 550 manns á klukkustund. Efri endi lyftunnar er í rúmlega 650 metra hæð yfir sjó. Í Skarðsdal er að finna einhverjar bestu alhliða brekkur landsins. Nýlega var reistur glæsilegur skíðaskáli þar sem aðstaða fyrir gesti er öll til fyrirmyndar. Hópum eru gerð hagstæð tilboð um lyftukort og þess háttar. Góð flóðlýsing er einnig á skíðasvæðinu svo skammdegið ætti ekki að aftra för skíðamannsins.
Í Ólafsfirði eru kjöraðstæður til vetraríþrótta. Hægt er að fara í vélsleðaferðir um fjöll og dali í nágrenninu og er aðstaða til skíðaiðkunar óvíða betri. Göngubrautir eru troðnar alla daga þegar veður leyfir. Á skíðasvæðinu í Tindaöxl eru skíðalyfta og góðar svigbrautir. Brettamenn fá stór ótroðin svæði og nota gjarnan hryggina í brekkunni til að sýna listir sínar. Í glæsilegum skála Skíðafélagsins er boðið upp á ýmiss konar veitingar. Í skálanum er svefnloft þar sem um 25 manns geta gist í svefnpokum. Hópum eru gerð hagstæð tilboð um lyftukort og þess háttar.
Svæðið í kringum Fjallabyggð er einstaklega hentugt til vélsleðaferða. Dalir með snjó langt fram eftir vori gera svæðið að einstakri útivistarparadís fyrir vélsleðafólk.
Fátt jafnast á við góðan dag á fjöllum og að skíða niður ósnortnar brekkur í stórfenglegu umhverfi. Tröllaskagi er án efa besta fjallaskíðasvæði landsins, með sín háu fjöll og mikla snjó. Fjöllin á Tröllaskaga eru á heimsmælikvarða og bjóða uppá brekkur við allra hæfi hvort sem þú ert að byrja eða í leit að verulegum áskonunum. Hér er hægt að ganga á fjöll og skíða niður frá mars og fram í júní. Þegar daginn fer að lengja verður snjórinn enn betri og þegar kemur fram í júní er hægt að skíða í miðnætur sólinni eins og um miðjan dag.
Fjöllin á Tröllaskaga geyma hæstu fjöll Norðurlands. Á utanverðum Tröllaskaga má nefna Dýjafjallshnjúk 1445 m, Kvarnárdalshnjúk 1424m og Heiðingja 1402m. Meðalhæð fjalla er um 930m eða 3000ft.
Svæðið er því kjörlendi fyrir göngufólk og má finna gönguleiðir fyrir alla, hvort sem menn vilja ganga á láglendi um Friðland Svarfdæla, klífa fjöll eða fornar þjóðleiðir á milli byggðarlaga.
Í Fjallabyggð eru tvö ferðafélög sem bjóða upp á ýmis konar gönguferðir: Ferðafélagið Trölli, Ólafsvegi 42 í Ólafsfirði og Top Mountaineering, Hverfisgötu 18 á Siglufirði, standa fyrir nokkrum skipulögðum gönguferðum á hverju ári, jafnt um sumar sem vetur. Átak hefur verið gert í merkingum gönguleiða á Tröllaskaga og eru margar skemmtilegar merktar og stikaðar gönguleiðir í Fjallabyggð. Þær eru mislangar og misjafnlega krefjandi, svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Hægt er að hafa samband við Top Mountaineering með því að hringja í síma: 898-4939 eða senda tölvupóst á gesturhansa@simnet.is. Ferðafélagið Trölli í ólafsfirði er með heimasíðu http://trolli.fjallabyggd.is/forsida/. Hægt er að nálgast upplýsingar um dagskrá og ferðir á http://trolli.fjallabyggd.is/fyrirspurnir/ eða í tölvupósti til tommi@skiltagerd.is.
Um 13 afþreyingarfyrirtæki eru í Fjallabyggð og er hægt að nálgast allar upplýsingar um þau á visittrollaskagi.is
Í Fjallabyggð er einnig blómlegt menningarlíf. Fjöldi veitingahúsa, með fjölbreytta matseðla er að finna í Fjallabyggð og gistimöguleikar miklir. Einnig eru nokkur gallerí og listamannavinnustofur sem áhugavert er að heimsækja og svo má ekki gleyma söfnum og setrum. Þar má nefna stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins: Síldarminjasafnið. Óvíða finnast jafnfjölbreyttir og skemmtilegir möguleikar til þess að láta sér líða vel í jafnfallegu umhverfi og afslöppuðu andrúmslofti og er í Fjallabyggð. Þar ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Hvað er betra eftir góðan dag á fjöllum en að hvíla lúin og köld bein í hlýjum lindum og spjalla aðeins um stjórnarfarið? Í Fjallabyggð eru tvær sundlaugar sem uppfylla óskir kröfuhörðustu sundiðkenda. Á Siglufirði er 25 metra innisundlaug, heitur pottur (úti). Sundlaugin er staðsett við Hvanneyrarbraut 52. Í Ólafsfirði er útisundlaug, tveir heitir pottar, setlaug, vaðlaug með svepp, fosslaug og tvær rennibrautir. Sundlaugin er staðsett að Tjarnarstíg 1.
Amazing Mountains er eitt af þeim fjölmörgu afþreyingarfyrirtækjum í Fjallabyggð. Boðið er upp á ferðir fyrir skíðafólk og ferðamenn sem langar upp á fjallgarðinn Tröllaskaga, hvort sem ætlunin er að renna sér á skíðum niður hlíðina eða að sitja á vélsleðanum upp og niður fjöll og firnindi. Þar má upplifa akstur með vönum heimaökumönnum og njóta útsýnisins, taka ljósmyndir af mikilfenglegu landslaginu og heillast af feimnum norðurljósum uppi yfir fjallstindum Tröllaskaga. Einnig er boðið uppá leigu á drónum, fjallatjald og búnað til gistingar í því, bæði fyrir einstaklinga og minni hópa. Amazing Mountains býðst til þess að flytja allan farangur og búnað upp á fjöllin, viðskiptavinum sínum til hægðarauka. Til þess að panta ferðir með Amazing Mountains má hringja í síma: 863-2406 eða senda tölvupóst á: solvilarus@gmail.com. Amazing Mountains er staðsett að Hrannarbyggð 14, 625 Ólafsfirði.
Í Skarðsdal, rétt fyrir utan Siglufjörð, er að finna eitt glæsilegasta skíðasvæði landsins og einn helsti kostur svæðisins eru stuttar raðir í lyftur, enda um nokkrar að ræða. Gönguskíðabraut er einnig troðin fyrir gönguskíðaiðkendur í Hólsdal þegar nægur snjór og aðstæður leyfa. En bent er á að mjög góð gönguskíðabraut (Bárubraut) er í Ólafsfirði og þegar nægur snjór er í Ólafsfirði er troðinn braut fyrir allan almenning að auki. Nánari upplýsingar um Skíðasvæðið í Skarðsdal má nálgast á vefsíðunni; skardsdalur.is. Fátt er svo skemmtilegra en að taka sér göngutúr um snjóflóðavarnargarðana fyrir ofan Siglufjörð, enda er útsýnið stórbrotið og nálægðin við náttúruna magnþrungin.
Ekki má gleyma sögu bæjarins en Síldarminjasafnið er eitt glæsilegasta safn landsins, þar sem saga og andi bæjarins mætast í ógleymanlegri stund. Því er svo ekkert til fyrirstöðu að skella sér á eitt af kaffihúsum bæjarins eftirá og njóta tíu rjúkandi kaffidropa eða sötra á heitu súkkulaði með ekta rjóma. Það bragðast allt betur í hreinu sjávarloftinu.
Ólafsfjörður er sannkallaður ævintýrabær. Þar er meðal annars að finna frábært skíðasvæði fyrir þá sem vilja eitthvað öðruvísi. Ásamt hefðbundnum skíðabrekkum eru þar leikjabrautir fyrir bæði skíði og bretti. Einnig eru snjóþotubrautir fyrir þá sem vilja heldur sitja á leiðinni niður brekkuna. Að auki eru lagðar vélsleðabrautir fyrir ökuþóra og þó nokkrar gönguskíðabrautir fyrir göngugarpa á skíðum. Á Ólafsfirði er einnig að finna glæsilegt náttúrugripasafn með uppstoppuðum ísbirni, þeim sama og var skotinn á Grímseyjarsundi, vísi að plöntusafni, eggjasafn og fjölda uppstoppaðra fugla, en þess má geta að fuglalíf í bænum er með eindæmum fjölskrúðugt, sérstaklega á sumrin.
Allar nánari upplýsingar má nálgast á og í gegnum vefsíðu Fjallabyggðar; fjallabyggd.is og visittrollaskagi.is.