„Upphaflega var hugmyndin að baki Reykjavik Yoga að bjóða ferðamönnum upp á jógatíma, svona tækifæri til að halda við iðkuninni á meðan maður er á ferðalagi. Sjálf ferðast ég frekar mikið og mér finnst gott að geta farið í tíma erlendis. Síðan tók þetta á sig þá mynd að í bland við ferðamennina tóku erlendir heimamenn að sækja tímana og í seinni tíð eru Íslendingar farnir að bætast meira við. Þetta er því orðin mjög fjölbreytt blanda af ferðamönnum, erlendum heimamönnum og Íslendingum.“
Þetta segir Bjarney Hinriksdóttir hjá jógastöðinni Reykjavik Yoga, Frakkastíg 16, Reykjavík. Hún rekur stöðina ásamt Klöru Kalkusova sem er jógakennari frá Tékklandi. Segir Bjarney að þeim sem sæki tíma í stöðina líki vel að vera í svo fjölbreyttum og fjölþjóðlegum hópi.
Að sögn Bjarneyjar hefur jógaiðkun mjög jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Auk þess að komast í betra form minnkar m.a. streita hjá fólki og núvitund eykst. Aðspurð segir hún að jóga breyti lífi fólks þegar til lengdar lætur.
„Margir byrja í jóga út af hreyfingunni, því þetta styrkir vöðvana og bætir liðleika, gerir svo margt fyrir líkamann. En fljótlega komast flestir að því að þetta styrkir ekki síður andlega þætti og opnar fyrir ákveðna sjálfskoðun. Andlegi þátturinn, hugleiðsla og sjálfsnæring, eru stór hluti af okkar tímum og fólk fer að upplifa meiri andlega og líkamlega vellíðan. Það fær jafnvel nýja sýn á lífið. Við leggjum mikla áherslu á núvitund og erum með núvitundarhugleiðslu sem hluta af tímunum.“
Bjarney segir að núvitundaræfingar hafi gífurlegan andlegan ávinning, hjálpi fólki að takast á við lífið almennt og þjálfi hugann í að vera í núinu.
Aðspurð segir Bjarney að jóga geti verið líkamlega krefjandi, sérstaklega fyrir byrjendur. Hins vegar eru tímarnir í Reykjavik Yoga þannig hannaðir að þeir henta jafnt byrjendum sem lengra komnum. Á næstunni verða síðan í boði sérstakir byrjendatímar.
Nánari upplýsingar á heimasíðunni reykjavikyoga.com, Facebook-síðunni Reykjavik Yoga og í síma 825-2417.