fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
FókusKynning

Gleymdu London, París og New York: Þetta eru mun ódýrari valkostir

Auður Ösp
Sunnudaginn 28. janúar 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ár eftir ár tróna borgir á borð við London, París og New York á toppnum yfir vinsælustu ferðamannastaðina. Það er að sjálfsögðu ekki að undra enda standa þessar borgir ávallt fyrir sínu. En jafnvel þó að aðeins sé skroppið í helgarferð til einhverra af þessum borgum þá er buddan ansi fljót að tæmast. Því er ekki galið að líta til annarra borga í Evrópu og Bandaríkjunum þar sem einnig má finna fjölbreytt framboð af afþreyingu, menningu, veitingastöðum og verslunum en á mun viðráðanlegra verði fyrir hinn almenna Íslending. Business Insider í Bretlandi birti nýlega úttekt á þessum borgum.

Toronto í staðinn fyrir New York

„Borgin sem aldrei sefur“ er sígildur áfangastaður í Bandaríkjunum. Verðlag á hótelum, söfnum, skemmtunum, mat og áfengi er hins vegar með því hæsta sem þekkist, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur á heimsvísu. Þeir sem eru í leit að fjölbreyttum veitingastöðum, skemmtilegum hverfum og iðandi menningar- og leikhúslífi ættu einnig að líta til Toronto en kanadíska borgin er síst lakari en New York þegar kemur að fjölmenningu. Bæði Icelandair og WOW air bjóða upp á beint flug til Pearson-flugvallar frá Keflavík.

Mynd: @2016 Reyaz Limalia

Sem dæmi má nefna að yfir 200 tungumál eru töluð í borginni auk þess sem meira en helmingurinn íbúa samanstendur af hinum ýmsu minnihlutahópum. Þá skilar hátt hlutfall innflytjenda frá Suður-Asíu, Kína og Filippseyjum sér í ríkulegri matarmenningu en Toronto á sitt Kínahverfi rétt eins og New York. Þá er verðlag á máltíðum, skemmtunum og samgöngum hagstæðara en gengur og gerist auk þess sem samgöngukerfið þykir afar þægilegt í notkun.

Madríd í staðinn fyrir París

Parísarborg heillar ferðalanga upp úr skónum enda má þar finna sögufrægar byggingar, heimsþekkt söfn og einstaklega rómantískt andrúmsloft. Borgin er jafnframt með þeim dýrustu í Evrópu en verð á þokkalegu hótelherbergi miðsvæðis er sjaldan undir 20 þúsund krónum. Þá kostar sitt að snæða á veitingastöðum auk þess sem yfirleitt er rukkaður aðgangseyrir að vinsælustu ferðamannastöðunum.

Madríd er einkar fögur rétt eins og París en borgin er að mörgu leyti mun viðráðanlegri auk þess sem íbúarnir þykja oft á tíðum vingjarnlegri og hjálpsamari. Borgin er einnig mun hentugri fyrir ferðalanga sem kjósa að vera að mestu leyti fótgangandi. Rétt eins og París býr Madríd yfir langri og heillandi sögu og ævafornri byggingarlist. Þá má jafnframt finna þar heimsklassa listasöfn og gallerí svo ekki sé minnst á næturlífið.

Mynd: Tanatat Pongpibool

Madríd er einnig ódýrari en margar höfuðborgir í Evrópu og þá sérstaklega þegar kemur að hótelgistingu. Þá er víst að hægt er að snæða þriggja rétta máltíð á fínum veitingastað fyrir helmingi lægri upphæð en á sambærilegum stað í frönsku höfuðborginni.

Norwegian Air býður upp á beint flug til Madríd frá Keflavík auk þess sem Icelandair flýgur beint til borgarinnar frá 3. júní til 16. september.

Berlín í staðinn fyrir London

Heimsborgin London stendur alltaf fyrir sínu enda miðstöð menningar og skemmtunar svo ekki sé minnst á úrval verslana og ógleymanlega ferðamannastaði. Borgin nýtur þó einnig þess vafasama heiðurs að vera ein dýrasta ferðamannaborg Evrópu. Nóttin á þriggja stjörnu hóteli er sjaldnast undir 15 til 20 þúsund krónum og þá kosta samgöngur sitt svo ekki sé minnst á miða á vinsæla söngleiki.

Mynd: Thomas Wolf

Á meðan er verðlagið í höfuðborg Þýskalands almennt talið hagstæðast af öllum borgum í Evrópu. Borgin er ekki síðri valkostur fyrir þá sem vilja upplifa ólík menningaráhrif, fjölbreytt söfn, heillandi hverfi og litríkt mannlíf. Nótt á þriggja stjörnu hóteli kostar sjaldnast meira en 10 þúsund krónur auk þess sem verð á samgöngum, skemmtunum, mat og áfengi er mun lægra en í London.

Icelandair og WOW air bjóða bæði upp á beint flug til Berlínar allt árið um kring.

Bangkok í staðinn fyrir Hong Kong

Milljónir ferðamanna flykkjast til Hong Kong á hverju ári og ekki að ástæðulausu, hvort sem það eru stórbrotnir skýjakljúfar, heillandi saga eða fjölbreytt mannlíf. En buddan tæmist hratt á meðan dvalið er í borginni. Október og nóvember eru vinsælustu mánuðirnir til að heimsækja Hong Kong enda er hitastigið þá þolanlegast en um leið rýkur verðlagið upp í hæstu hæðir og er meðalverð á hótelgistingu í kringum 25 þúsund krónur á nótt. Þá er verð á veitingastöðum sambærilegt við það sem hægt er að finna í New York og London.

Mynd: Tetra

Á meðan er hótelverð yfirleitt helmingi lægra í höfuðborg Taílands auk þess sem máltíð á hefðbundnum veitingastað kostar sjaldan meira en 1.500 krónur. Þá er einnig óhætt að fullyrða að í Bangkok er hægt að finna allt litróf mannlífsins. Ferðamenn verða ekki sviknir af stöðum á borð við Grand Palace, gamla konungssvæðið eða Wat Po, hofið þar sem þriðja hæsta Búddalíkneskið er þakið 24 karata gullblöðum

Bangkok er borg andstæðna. Þú getur keypt núðlur frá götusala eða fínan kvöldverð á veitingastað sem er staðsettur á toppi háhýsis. Hægt er að finna allt frá skítugum flóamörkuðum upp í fínustu verslunarmiðstöðvar svo ekki sé minnst á skemmtistaðina sem spanna allt frá furðulegum neðanjarðarstöðum í Rauða hverfinu upp í heimsklassa klúbba.
Fyrir þá sem vilja versla má einnig benda á að hægt er að kaupa merkjavöru á afar hagstæðu verði í borginni auk þess sem hægt er að gera kjarakaup á hinum ýmsu götumörkuðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
19.03.2024

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“
Kynning
27.10.2023

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni