Kanadísk rannsókn varpar ljósi á kynóra kynjanna – Reynslusögur Íslendinga
Guðríður er grandvör kona á fimmtugsaldri sem vinnur í banka. Á daginn klæðist hún óaðfinnanlegum drögtum og fjarsýnisgleraugun hanga jafnan framan á henni í fínlegri gylltri keðju. Tvisvar á ári hittir Guðríður spænskan fyrrverandi kærasta sinn í evrópskri borg þar sem þau njóta samvista, samræðna og samræðis.
Þess á milli er hún sjálfri sér næg, eða kannski ættum við að segja hér um bil, því hún notar reglulega titrara þegar hún á ástarstundir í einrúmi. Þegar Guðríður elskar sjálfa sig notar hún kynóra til að æsa sig upp. Hún hugsar oftast um kynlíf með öryggisverðinum sem kemur alla daga í lok vinnudags og læsir bankanum. Manninn þekkir hún nákvæmlega ekki neitt en hún hugsar endurtekið um þau tvö í hamslausum ástarleik á ýmsum húsgögnum í bankanum. Í sumum útgáfum óranna uppgötva þau að samstarfsfélagi liggur á gæjum – þau láta það síst trufla sig.
## Algeng fantasía
Guðríður er afskaplega eðlileg, og fantasían hennar fellur meira að segja í flokk þeirra sem eru algengastar hjá konum. Jú viti konur! Það er búið að rannsaka hvers kyns fantasíur eru algengastar hjá konum og körlum. Í kanadískri rannsókn sem gefin var út 2014 í Journal of Sexual Medicine var reynt að varpa ljósi á algengi ýmiss konar kynóra. Rúmlega 1.500 fullorðnir einstaklingar svöruðu spurningalista á netinu – en listinn kallast Wilson’s Sex Fantasy Questionnaire og hefur verið notaður til að rannsaka eðli kynóra frá því að hann kom út árið 1978. Í útgáfunni sem rannsakendur lögðu fyrir voru 55 fullyrðingar sem svarendur voru beðnir um að taka afstöðu til.
Hér eru dæmi um fullyrðingar af listanum:
Ég hef látið mig dreyma um kynlíf með ókunnugri manneskju
Ég hef látið mig dreyma um kynlíf á opinberum stað
Ég hef látið mig dreyma um endaþarmskynlíf
Ég hef látið mig dreyma um kynlíf með dýri
Svarandur áttu að taka afstöðu á skala sem spannaði 1–7, þar sem 1 táknaði ósammála og 7 mjög sammála.