Hver segir að maður þurfi að kaupa sér rándýrt líkamsræktarkort til að komast í þokkalegt form? Mörg okkar hafa takmarkaðan tíma sökum vinnu, skóla eða barna og því getur verið gott að geta stundað hreyfinguna heima í stofu.
Bobby Maximus er vinsæll einkaþjálfari og pistlahöfundur hjá Men‘s Health-tímaritinu. Hann deildi árangursríkri æfingu með lesendum vefjarins ekki alls fyrir löngu en í þessari tilteknu æfingu þarftu í raun ekkert nema örlítið pláss og vegg til að halla þér upp að.
Æfinguna kallar hann „Sore Legs, No Equipment“ en í henni framkvæmirðu tuttugu umferðir af framstigum og setu upp við vegg.
Með öðrum orðum byrjarðu á að gera tuttugu framstig á hægri fæti, svo tuttugu framstig á vinstri fæti áður en þú sest upp við vegg í 30 sekúndur. Svo gerirðu nítján framstig á hægri, nítján á vinstri og sest aftur upp við vegginn í 30 sekúndur. Svo átján framstig og koll af kolli þar til þú ferð niður í einn. Nánari útlistun á æfingunni má sjá í myndbandinu hér neðst.
Gott er að ímynda sér að þú sért að setjast á stól upp við vegg en að sjálfsögðu er æfingin til þess gerð að styrkja vöðvana í lærunum og rassinum. Æfingin gagnast þeim sem vilja á sama tíma auka vöðvaþol og vöðvastyrk.
„Þessi æfing er löng og erfið en hún gerir þig sterkari,“ segir Bobby og bætir við að fólk mun vilja gefast upp þegar æfingin er hálfnuð, jafnvel fyrr. „En að hætta ekki og gefast ekki upp er lykillinn að því að ná árangri,“ segir Bobby.
Þeir sem ekki hafa hreyft sig svo mánuðum, jafnvel árum, skiptir geta gert auðveldari útfærslu á æfingunni og byrjað kannski á 5-10 framstigum. Mikilvægt er þó, að sögn Bobby, að hvíla ekki meðan á æfingunni stendur heldur reyna eftir fremsta megni að klára hana án þess að taka pásu.